Íslenski boltinn

Þriðja deildartap KR-inga í röð í Laugardalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik KR og FH í Laugardalnum í gær.
Frá leik KR og FH í Laugardalnum í gær. Vísir/Stefán
KR-ingar hugsa sig örugglega tvisvar um að færa aftur heimaleik sinn á gervigrasið í Laugardal eftir þriðja deildartap sitt í röð í Laugardalnum í gærkvöldi.

KR tapaði 0-1 á móti FH í gærkvöldi í stórleik þriðju umferðar Pepsi-deildar karla en hafði áður tapað 1-2 á móti Val í fyrstu umferðinni.

KR-liðið er þar með búið að tapa tveimur fyrstu heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni í sumar en þeir voru báðir færðir af KR-vellinum yfir á Gervigrasið í Laugardal af því að grasið í Frostaskjóli er ekki tilbúið eftir kaldan vetur. 

Í viðbót við það töpuðu KR-ingar á móti Fram á Laugardalsvellinum í fyrrasumar, eina deildarleiknum sem Vesturbæjarliðið spilaði í Dalnum á síðustu leiktíð.  

KR-liðið vann aftur á móti átta síðustu leiki sína á KR-vellinum í fyrra og alls 10 af 11 heimaleikjum sumarsins en KR-liðið náði þá í 31 stig af 33 mögulegum. Nú er KR-liðið hinsvegar þegar búið að tapa sex stigum á heimavelli sínum í sumar.  

Það kemur því kannski ekki mikið á óvart að KR-ingar skiptu um heimaleik við Keflavík í næstu umferð. Næsti heimaleikur liðsins verður því ekki fyrr en á móti Fram 2. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×