Handbolti

Umfjöllun: Finnland - Ísland 20-29 | Stelpurnar gerðu sitt en fara ekki á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vísir/Valgarður
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fer ekki á EM 2014 í Ungverjalandi og Króatíu þrátt fyrir sigur á slöku liði Finnlands, 29-20, í leik liðanna ytra í dag. Slóvakar náðu á sama tíma í stig gegn Frökkum á heimavelli og eru því þremur stigum á undan okkar stelpum þegar aðeins einn leikur er eftir.

Getumunurinn var algjör á liðum Íslands og Finnlands í dag en Ísland var tólf mörkum yfir í hálfleik, 18-6. Sóknarleikur Finna gekk afar illa og þá var Íris Björk Símonardóttir með 66 prósent markvörslu eftir fyrri hálfleikinn.

Íslensku stelpurnar þurfu lítið að hafa fyrir hlutunum og náðu mest sextán marka forskoti, 28-12, eftir 46 mínútna leik. Heimakonur sóttu þó í sig veðrið undir lok seinni hálfleik og minnkuðu muninn niður í níu mörk. Ísland skoraði ekki mark síðustu tíu mínúturnar.

Hildigunnur Einarsdóttir og nýliðinn Steinunn Hansdóttir voru markahæstar hjá Íslandi með fimm mörk og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði fjögur mörk. Íris Björk varði 17 skot í markinu.

Mikil spenna var í leik Slóvakíu og Frakklands en eftir að Slóvakar komust yfir, 20-17, skoraði Frakkland þrjú mörk í röð og jafnaði leikinn. Í stöðunni 24-24 fór Frakkland í sókn en tapaði boltanum. Slóvakar héldu út, náðu í stig og tryggðu sér sæti á EM í desember.

Þetta þýðir að leikur Íslands og Slóvakíu í Laugardalshöllinni á sunnudaginn skiptir engu fyrir okkar stelpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×