„Eins og ég segi þá hef ég gengið með þessa hugmynd í um tólf ár en þetta fór svo á flug þegar Davíð Óskar og Árni Filippusson hjá Mystery komu inn í þetta, þá fór þetta að gerast,“ bætir Gunnar við. Framleiðslufyrirtækið Mystery hefur unnið að gerð fjölda vinsælla kvikmynda og má nefna Málmhaus, Sveitabrúðkaup og Á annan veg, svo nokkrar séu nefndar.
Myndin, sem er gamanmynd, fer í tökur í ágústmánuði og fara tökur fram víðs vegar um landið. „Myndin fjallar um tvo æskuvini sem ákveða að bakka hringinn í kringum landið. Að keyra aftur á bak á fimmtán til tuttugu kílómetra hraða er ekki alveg það auðveldasta en við erum að fara að gera þetta,“ segir Davíð Óskar.

Ekki liggur fyrir hvernig bíll verður notaður í myndinni en það verður að minnsta kosti mikið álag á honum. „Við erum enn að velta þessu fyrir okkur, bíllinn leikur allavega stórt hlutverk,“ bætir Gunnar við.
Gert er ráð fyrir að myndin verði tilbúin á næsta ári, í kringum páskaleytið.