Vísar Egill þar í Hvítbók menntamálaráðuneytisins frá því júní þar sem eitt meginmarkmiðið er að auka lestrarfærni íslenskra barna. Nú er aftur á móti umræða um að hækka virðisaukaskatt á bókum vegna breytinga á skattkerfinu og hafa útgefendur áhyggjur af þeirri hækkun.

„Ég er ekki svo sannfærð um að íslenskir drengir kunni ekki að lesa, ég held þeir kunni bara að lesa á ensku. Börn þurfa þjálfun í að lesa og hugsa á íslensku og til þess þarf að vera til íslenskt gæðaefni,“ segir Bryndís og bætir við að þannig sé líka almennt hlúið að íslenskunni sem er í aukinni útrýmingarhættu.

„Þannig náum við að hleypa lífi í ritun og útgáfu íslenskra barna- og unglingabóka sem er í samræmi við hin ágætu markmið Hvítbókar.“
Á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur í gær var samþykkt að setja á fót fagráð um leið til að efla lestrarfærni og lesskilning barna í skólum borgarinnar.
Freyja Birgisdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ, er formaður ráðsins og segir hún lestur barna í frítíma afar mikilvægan til að þróa lesskilning.
„En til þess þarf að kveikja áhuga barnanna og því eigum við að stuðla og hlúa að útgáfu íslensks efnis,“ segir Freyja og nefnir hinar vinsælu fótboltabækur Gunnars Helgasonar sem dæmi um bækur sem hafa náð vel til íslenskra barna.