Bíó og sjónvarp

Sjöundi kafli Stjörnustríðs mun fjalla um Loga, Lilju og Han Solo

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Harrison Ford er orðinn 71 árs, Carrie Fisher 57 ára og Mark Hamill 62 ára.
Harrison Ford er orðinn 71 árs, Carrie Fisher 57 ára og Mark Hamill 62 ára. vísir/getty
Næsta Stjörnustríðsmynd, og sú fyrsta í nýjum þríleik, mun fjalla að mestu leyti um hinar goðsagnakenndu persónur Loga geimgengil, Lilju prinsessu og Han Solo. Þetta stangast á við eldri fréttir af myndinni þar sem því var haldið fram að börn persónanna yrðu í aðalhlutverkum.

Lawrence Kasdan, sem tók við handritaskrifum af Michael Arndt í október, mun leggja áherslu á gömlu persónurnar í handriti sínu til þess að áhorfendur fái „eitt tækifæri í viðbót til að njóta þeirra áður en þær verða lagðar til hliðar“, segir á vef Hollywood Reporter. Afkomendurnir munu síðan taka við og verða aðalpersónur áttunda og níunda hluta.

Þrátt fyrir þessa breytingu heyrast enn sögusagnir um nýja leikara sem sagðir eru koma til greina í hlutverk. Þar má nefna þá Michael Fassbender, Hugo Weaving og Adam Driver. Allt eru þetta þó getgátur og eina persónan sem staðfest hefur verið að komi fram í nýju myndinni er vélmennið knáa R2D2.

Sjöunda Stjörnustríðsmyndin er væntanleg í kvikmyndahús jólin 2015.

Hamill, Fisher og Ford í hlutverkum sínum árið 1977.

Tengdar fréttir

Solo verður sóló

Enn berast fregnir úr Star Wars-heimum. Auk nýju myndarinnar, sem stefnt er á að frumsýna árið 2015, stendur til að gera sérstakar myndir um þá Han Solo og Boba Fett.

Ný Star Wars mynd árið 2015

Walt Disney hefur eignast Lucasfilm og hyggst gefa út nýjar Star Wars myndir á næstu árum. George Lucas mun sjálfur starfa sem skapandi ráðgjafi við gerð sjöundu Star Wars myndarinnar sem verður frumsýnd árið 2015.

Ford aftur í Stjörnustríð

Harrison Ford mun endurtaka hlutverk sitt sem Han Solo úr Stjörnustríðsmyndunum í nýjustu kvikmynd seríunnar. Vefsíðan Latino Review greinir frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.