Íslenski boltinn

Þór/KA sækir markvörð alla leið til Suður-Afríku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roxanne Barker.
Roxanne Barker. Vísir/NordicPhotos/Getty
Þór/KA hefur samið við þrjá erlenda leikmenn fyrir komandi tímabil í Pepsi-deild kvenna. Það kemur fram á heimasíðu félagsins að Kayla Grímsley og Tahnai Annis leiki báðar áfram með liðinu auk þess að Þór/KA hefur fengið til sín suður-afríska landsliðsmarkvörðinn Roxanne Barker.

Roxanne Barker er 23 ára og 180 sm á hæð og þessi öflugi markvörður lék síðast með Stellanbosch í Suður-Afríku en þar áður með Pepperdine University í bandaríska háskólaboltanum. Barker kemur í stað Victoriu Alonzo sem lék með norðanliðinu síðari hluta síðasta tímabils.

Roxanne Barker var í Ólympíuliði Suður-Afríku í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í London 2012. Hún spilaði einn af þremur leikjum liðsins, stóð í markinu í 1-4 tapi á móti Svíum.

Roxanne Barker spilaði 79 leiki með Pepperdine University frá 2009 til 2012, fékk á sig 0,9 mörk í leik, varði 82 prósent skota sem á hana komu og hélt marki sínu hreinu í 31 leik. Pepperdine University vann 47 af þessum 79 leikjum og tapaði aðeins 10 þeirra þar af engum á lokaárinu.

Kayla Grimsley og Tahnai Annis hafa báðar leikið með Þór/KA-liðinu síðustu tvö tímabil og þær munu leika áfram með liðinu. Leikmennirnir áttu stóran þátt í því að Þór/KA-liðið varð Íslandsmeistari 2012.

Vísir/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×