Sport

Li Na og Cibulkova mætast í úrslitum á opna ástralska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominika Cibulkova fagnar hér sigri.
Dominika Cibulkova fagnar hér sigri. Mynd/AP
Li Na frá Kína og Dominika Cibulkova frá Slóvakíu tryggðu sér í nótt sæti í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna á opna ástralska meistaramótinu í tennis þegar þær unnu báðar undanúrslitaleiki sína í Melbourne.

Hin kínverska Li Na er komin í úrslitaleikinn í Melbourne í þriðja sinn á fjórum árum en hún vann öruggan 6-2 og 6-4 sigur á hinni 19 ára gömlu Eugenie Bouchard frá Kanada í undanúrslitaleik í nótt.

Li Na var komin 5-0 yfir eftir aðeins fjórtán mínútur og það var nokkuð ljóst að Bouchard var ekki alveg að ráða við það að keppa á stóra sviðinu. Li Na hefur unnið eitt risamót en á enn eftir að vinna opna ástralska mótið.

Slóvakinn Dominika Cibulkova er líka kominn í úrslitaleikinn eftir öruggan 6-1 og 6-2 sigur á Agnieszku Radwansku frá Póllandi en Cibulkova hefur öðrum fremur verið spútnikstjarna mótsins.

Cibulkova sló út Mariu Sharapovu fyrr í mótinu og vann nú Agnieszku Radwansku sem hafði fellt meistara tveggja síðustu ára, Victoria Azarenka, í leiknum á undan. Agnieszka Radwanska kenndi þreytu um en hún var í það minnsta ekki sami leikmaður og stoppaði sigurgöngu Azarenku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×