Breska skíðafimikonan Rowan Cheshire hefur dregið sig úr keppninni í hálfpípu á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi í framhaldi af því að hún datt illa í Ólympíubrautinni um helgina.
Cheshire datt mjög illa á andlitið í æfingaferð, missti meðvitund í nokkrar mínútur og var síðan flutt á sjúkrahús til meðhöndlunar. Cheshire fékk slæman heilahristing og þarf að fara varlega næstu dagana.
Rowan Cheshire var í hópi þeirra sem áttu möguleika á því að vinna til verðlauna í hálfpípukeppni í Sotsjí.
Cheshire átti að keppa á fimmtudaginn en hefur nú dregið sig úr keppni enda enn nokkuð í það að hún nái sér af meiðslunum.
„Rowan er bara 18 ára gömul og á bjarta framtíð fyrir höndum sér. Ég er ekki í vafa um að hún mætir aftur eftir fjögur ár og þá ákveðnari en aldrei fyrr," sagði Pat Sharples yfirþjálfari breska skíðafimiliðsins við BBC.
Cheshire treystir sér ekki til að keppa á ÓL
Tengdar fréttir
Datt illa í Ólympíubrautinni og endaði á spítala
Breska skíðafimikonan Rowan Cheshire endaði á spítala eftir að hafa dottið illa á andlitið á æfingu fyrir keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.