Bílar

Magnaður Pepsihrekkur

Finnur Thorlacius skrifar
Bílablaðamanni á Jalopnik bílavefnum var gerður sérlega vel heppnaður hrekkur um daginn, en hrekkurinn var í raun í röð Pepsiauglýsinga þar sem fólki er komið hressilega á óvart.

Í þessu tilviki lenti blaðamaðurinn þó í gríðarlegum eltingarleik gervi-leigubílsins sem hann sat í og lögreglubíls. Leigubílstjórinn tjáði honum, eftir að lögreglubíll virtist elta bílinn, að hann hefði setið í fangelsi í 10 ár og hefði lítinn áhuga á að fara aftur inn. Við það stígur hann bílinn í botn og reynir að stinga lögregluna af.

Staðreyndin var sú að þetta var allt eitt leikrit og ökumaður leigubílsins var þrautreyndur NASCAR ökumaður sem kann greinilega sitt í akstursfaginu. Eltingaleikurinn endar í vöruhúsi þar sem móttökurnar koma grunlausum blaðamanninum, sem var í mikilli geðshræringu, nokkuð á óvart. Sjón er sögu ríkari.






×