Bílar

Volkswagen að eignast Scania

Finnur Thorlacius skrifar
Vöruflutningabíll frá Scania.
Vöruflutningabíll frá Scania. Lovelyrides
Volkswagen rær nú að því öllum árum að eignast vörubílaframleiðandann Scania að fullu. Volkswagen á nú þegar megnið af fyrirtækinu og hefur 89,2% atkvæðisrétt í Scania.

Vandi Volkswagen er hinsvegar sá að minnihlutaeigendur í Scania hafa staðið í vegi fyrir því að Volkswagen eignist fyrirtækið að fullu. Svo langt er Volkswagen hinsvegar tilbúið að ganga að þeir bjóða nú 36% yfirverð fyrir bréfin sem eftir standa  Bréf Scania standa nú í 147,5 sænskum krónum en Volkswagen býður 200 krónur í hvert bréf.

Volkswagen þarf að eignast meira en 90% í félaginu, samkvæmt sænskum lögum, til að geta krafið aðra eigendur til sölu sinna bréfa.  Helsta ástæðan fyrir miklum áhuga Volkswagen til þess að eignast Scania að fullu er vilji VW til að samtvinna starfsemi Scania við MAN vörubílaframleiðandann, sem Volkswagen á að fullu.

Bréf Scania hafa hækkað um 7,4% á síðustu 12 mánuðum og er heildarvirði félagsins er nú 2.040 milljarðar króna. Volkswagen eignaðist sín fyrstu bréf í Scania árið 2000 og var komið í meirihlutaeigu þess árið 2008.

Sameinað félag MAN og Scania verður betur til þess fallið að keppa við hin markaðsleiðandi trukkafyrirtæki Mercedes Benz og Volvo og skýrir það ennfremur áhuga Volkswagen. 






×