Handbolti

Fjórtán ár á milli bikartitla hjá Berglindi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Íris Hansdóttir fagnar í gær.
Berglind Íris Hansdóttir fagnar í gær. Vísir/Daníel
Berglind Íris Hansdóttir átti stórleik í marki Vals í gær þegar Valskonur tryggðu sér bikarmeistaratitilinn með 24-19 sigri á Stjörnunni.

Berglind Íris tók skóna aftur af hillunni eftir áramót en hún hafði ekki spilað með Valsliðinu síðan vorið 2010. Þann vetur tapaði Valur 20-19 á móti Fram í bikarúrslitaleiknum í Höllinni en vann Íslandsmeistaratitilinn um vorið.  

Landsliðsmarkvörðurinn Guðný Jenný Ásmundsdóttir meiddist í vetur og Berglind Íris svaraði kalli Stefáns Arnarsonar þjálfara. Hún sýndi hversu öflug hún er með því að verja 22 skot á móti Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum í gær eða 56 prósent skota sem komu á hana í leiknum.

Það voru liðin fjórtán ár síðan að Berglind Íris varð bikarmeistari með Val en hún varði þá 21 skot í 27-23 sigri í framlengdum leik á móti Gróttu/KR. Sigurlaug Rúnarsdóttir, sem var í hópnum hjá Val í gær, var einnig með í þessum leik 19. febrúar 2000.

Það er óhætt að segja að Berglind hafi átti mikið í þessum tveimur bikarmeistaratitlum sem hún hefur unnið á ferlinum eins og sést vel á tölfræðinni hér fyrir neðan.

Berglind Íris Hansdóttir í bikarúrslitaleiknum 2000

Skot - 42

Varin skot - 21

Hlutfallsmarkvarsla - 50 prósent

Berglind Íris Hansdóttir í bikarúrslitaleiknum 2014

Skot - 39

Varin skot - 22

Hlutfallsmarkvarsla - 56 prósent

Vísir/Daníel
Vísir/Daníel

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×