Lífið

Wu-Tang birta myndir af Íslendingi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Skegg Arnaldar er heimsfrægt.
Skegg Arnaldar er heimsfrægt. Vísir/aðsent
„Ég fékk smá áfall og átti aldrei von á þessu,“ segir Arnaldur Grétarsson en rapparinn Method Man úr hljómsveitinni Wu-Tang Clan setti mynd af Arnaldi inn á Instagram-síðu sína og sendi honum kveðju fyrr í vikunni.

Ástæða myndbirtingarinnar er einföld: Arnaldur rakaði skegg sitt eftir hinu mjög fræga merki Wu-Tang hljómsveitarinnar. Skeggið hefur því vakið heimsathygli. Fleiri rapparar hafa birt myndina af Arnaldi á sínum síðum, Shabbazz the Disciple úr sveitinni Gravediggaz, sem kom einmitt hingað til lands rétt fyrir aldamótin, var einn þeirra. Auk þess hafa fréttasíður í Bandaríkjunum birt myndina.

Á síðu Method Man, sendir hann Arnaldi einfalda kveðju: „Crazy!!!! Salute!!!“ sem mætti þýða svo: „Klikkað!!!“ og kastar svo kveðju á Arnald að hermanna sið.

„Myndin er reyndar alveg ársgömul. Ég setti myndina á Facebook-síðina mína og gerði svo ekkert meira við hana,“ útskýrir Arnaldur. En frá Facebook-síðu hans hefur hún farið á flug um netheima og endað hjá Method Man.

„Mér brá þegar ég sá myndina á Instagram-síðunni hans. Það var ótrúlegt að fá kveðju frá hetjunni sinni,“ segir Arnaldur sem hefur verið aðdáandi Wu-Tang síðan árið 1993, þegar platan þeirra Enter the Wu-Tang: Return of the 36 Chambers kom út.

Tók þrjá mánuði að safna

Arnaldur fékk hugmyndina að þessum frumlega skeggrakstri þegar hann sá myndir af öðrum sem höfðu rakað merki í skegg sitt. „Svo datt mér bara einhvernveginn í hug að prófa að gera Wu-Tang merkið.“

Hann tók sér góðan tíma í að safna skeggi fyrir myndina. „Þetta tók mig alveg þrjá mánuði. En það var algjörlega þess virði. Ég var með þetta skegg yfir eina helgi og það vakti mikla lukku,“ útskýrir Arnaldur.

Ýmsir frasar, sem Wu-Tang aðdáendur ættu að þekkja hafa verið tengdir við myndina.

„Já menn hafa grínast og kallað þetta Wu-Tang Killa beard,“ segir Arnaldur og er það vísun í viðurnefni sveitarinnar sem er stundum nefnd „Wu-Tang Killa Bees“.

Einnig hefur verið vísað í eitt af frægari lögum sveitarinnar sem ber titilinn Protect Ya Neck, og þykir skegg Arnalds einstaklega hentugt til þess að uppfylla þann boðskap sveitarinnar.

Hér að neðan má sjá færslu Method Man á Instagram-síðu sinni, þegar hann kastaði kveðju á Arnald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×