Bíó og sjónvarp

Málssókn Tarantinos gegn Gawker vísað frá

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tarantino segir aðeins sex manns hafa fengið afrit af handritinu.
Tarantino segir aðeins sex manns hafa fengið afrit af handritinu. vísir/getty
Málssókn kvikmyndaleikstjórans Quentins Tarantino gegn vefsíðunni Gawker var vísað frá dómi í gær þar sem ekki þótti sannað að um höfundarréttarbrot væri að ræða.

Málið snýr að handriti vestrans The Hateful Eight sem lekið var á netið en Gawker skrifuðu frétt um lekann og vísuðu með tengli á handritið. Vefsíðan varð ekki við beiðni leikstjórans um að fjarlægja hlekkina og höfðaði hann því mál.

Alríkisdómarinn John F. Walter gaf leikstjóranum frest til 1. maí til þess að laga kröfuna og höfða málið upp á nýtt.

Tarantino sagði í samtali við vefsíðuna Deadline að aðeins sex manns hefðu fengið afrit af handritinu, þar á meðal leikararnir Bruce Dern, Michael Madsen og Tim Roth, en ekki er vitað hver lak því.

Leikstjórinn vinnur nú að breytingum á handritinu og segir hann enn mögulegt að gera myndina, en áður hafði hann ákveðið að hætta við gerð hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.