Viðskipti innlent

Þurfa að færa sparnaðinn í krónur vegna haftanna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Starfsemi erlendra tryggingafélaga og sala þeirra á sparnaðarleiðum til einstaklinga hérlendis brýtur gegn lögum um gjaldeyrismál. Þrjátíu þúsund Íslendingar sem hafa safnað sparnaði erlendis gegnum umboðsmenn erlendra tryggingafélaga hér á landi eftir að höftum var komið á, þurfa að hætta því og færa sparnaðinn í krónur.

Vöru og þjónustuviðskipti eru undanþegin gjaldeyrishöftum en undir það falla kaup á tryggingum. Miðlarar erlendra tryggingafyrirtækja eins og Allianz á Íslandi, Sparnaður og Tryggingamiðlun Íslands bjóða upp á sparnaðar- og tryggingarleiðir þar sem iðgjaldagreiðslum er varið til söfnunar höfuðstóls í erlendum gjaldeyri.

Hefur þessi þjónusta verið í boði árum saman án afskipta Seðlabankans. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að þetta yrði stöðvað þar sem Seðlabankinn teldi þetta brot á lögum um gjaldeyrismál.

Þurfa að færa sparnaðinn í krónur

Þessi stöðvun á fjármagnsflutningum vegna sparnaðar hjá þessum erlendu tryggingafélögum er enn ein birtingarmynd gjaldeyrishaftanna og áhrifa þeirra á daglegt líf almennings. Talið er að þrjátíu þúsund Íslendingar séu í viðskiptum við umboðsmenn þessara fyrirtækja hér á landi en Seðlabankinn mun veita þessum fyrirtækjum fjögurra mánaða aðlögunartíma til að færa sparnaðinn í íslenskar krónur. Þeir samningar sem voru gerðir fyrir 28. nóvember 2008, þegar gjaldeyrishöftin voru lögfest, halda gildi sínu. 

En hvers vegna tók það Seðlabankann allan þennan tíma að átta sig á því að þetta bryti gegn höftunum? „Í fyrsta lagi þegar lögin voru sett þá var þessi starfsemi frekar lítil. Það tók hana tíma að vinda upp á sig. Við fengum líka upplýsingar frá þessum aðilum sem voru að öllu leyti ekki réttar en það er þónokkuð síðan við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki í samræmi við lögin en það nægði ekki því við þurftum að gera þetta í góðri samvinnu við alla aðila sem að þessum málum koma hér innanlands og síðast en ekki síst Alþjóðgjaldeyrissjóðinn,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun hafa lengi vel flokkað þetta sem vöru- og þjónustuviðskipti sem stæði utan hafta. 

Jafnvirði 40 milljarða króna farið úr landi á fjórum árum

Már segir þetta flókna samninga sem séu blanda af vátryggingarsamningum og sparnaði. Síðan hafi farið talsverður tími í að finna leiðir til þess að gera þetta með þeim hætti að það ylli sem minnstum skaða gagnvart þeim einstaklingum sem gerðu samninga um þennan sparnað í góðri trú.

Seðlabankinn áætlar að á árunum 2012-2014 hafi jafnvirði 40 milljarða króna farið úr landi í erlendum gjaldeyri vegna þessara sparnaðarleiða.

Sá sparnaður sem þegar hefur byggst upp erlendis er ekki skilaskyldur. „Þetta fé er farið út og hefur myndað á þeim grundvelli ákveðin réttindi sem haldast. Við gerum enga kröfu um að vinda ofan af því sem orðið er enda viljum við gæta meðalhófs í þessu og að skaðinn verði sem minnstur." 

Már segir þetta hins vegar ekki útiloka að skilaskylda verði á þessum peningum síðar þegar hafin verður taka lífeyris af fénu, ef höftin verða þá enn við lýði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×