Sport

Kolbeinn Höður hljóp sig inn á HM unglinga | Hafdís með Íslandsmet

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Hafdís heldur áfram að gera það gott
Hafdís heldur áfram að gera það gott mynd/gunnlaugur júlíusson
Íslensku keppendurnir halda áfram að gera vel í 3. deild Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum í Tiblisi í Georgíu. Kolbeinn Höður Gunnarsson tryggði sér þátttökurétt á HM unglinga og Hafdís Sigurðardóttir vann langstökkið á nýju Íslandsmeti.

Hafdís stökk 6,41 metra og bætti eigið Íslandsmet um 5 sentimetra í fjórðu og síðustu tilraun. Dugði það til sigurs í keppninni sem tryggir mikilvæg stig til Íslands sem á í harðri keppni um 2. sætið í keppninni og um leið sæti í 2. deild.

Kolbeinn Höður varð í þriðja sæti í hlaupinni á 21,37 sekúndum og varð fimmta íslenska ungmennið til að tryggja sig inn á HM unglinga sem haldið verður í Eugene í Bandaríkjunum í júlí.

Auk Kolbeins hafa Aníta Hinriksdóttir (800m hlaup), Hilmar Örn Jónsson (sleggjukast), Sindri Hrafn Guðmundsson (spjótkast) og Jóhann Björn Sigurbjörnsson (200m hlaup) náð lágmarkinu fyrir mótið.

Af öðrum keppendum er það að frétta að Kári Steinn Karlsson varð fimmti í 3000 metra hlaupi karla á 8:29,63 mínútum en keppandinn frá Ísrael varð fjórði.

Arndís Ýr Hafþórsdóttir var fjórða í 5000 metra hlaupi kvenna á 17:32,12 mínútum en keppandinn frá Ísrael náði þriðja sæti og ljóst að munurinn á Íslandi og Ísrael er ekki mikill þegar fjórar greinar eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×