Viðskipti innlent

Í höftum þurfa sömu reglur að gilda fyrir alla

visir/daníel
Formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða vonast til þess að umræðan um breyttar reglur Seðlabankans varðandi lífeyrissparnað almennings í útlöndum verði til þess að raunhæfar tillögur að afnámi gjaldeyrishafta komi fram.

Hann segir þó eðlilegt að allir lífeyrrsjóðir sitji við sama borð.Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að stöðva lífeyrissparnað almennings í útlöndum en tilkynnt var um þessar breytingar á þriðjudag.

Nokkur fyrirtækið hafa boðið upp á þessa þjónustu hér á landi þar á meðal Allianz en stjórnendur fyrirtækisins hafa sagt að ákvörðun Seðlabankans hafi komið þeim í opna skjöldu.Íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekki heimild til að fjárfesta í útlöndum og því hafa sumir talið að þarna væri verið að mismuna félögum.

Gunnar Baldvinsson er stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða: „Við teljum fyrst og fremst að gjaldeyrishöftin séu mikil ógn við íslenskt efnhaglíf og sparifjáreigendur og þar með lífeyrissjóðina. Vonandi verður þessi aðgerð og umræða um hana til að ýta undir að raunhæfar tillögur að afnámi hafta komi fram. Við erum þeirrar skoðunar að meðan höftin séu þá þurfi sömu reglur að gilda um alla.“

Voru það lífeyrissjóðirnir sem þrýstu á um að þessari sparnaðarleið yrði lokað?

„Við teljum eins og ég segi mikilvægt að það gildi sömu reglur um alla. Við höfum kvartað undan því og viljum að allir vörsluaðilar sitji við sama borð. Helst viljum við auðvitað fá heimildir eins og aðrir til að fjárfesta ytra, en á meðan það er ekki hægt teljum við að sömu reglur eigi að gilda fyrir alla.“

Mun þessi breyting hafa þennsluhvetjandi áhrif á íslenskt efnahagslíf að ykkar mati?

„Nei ég á ekki von á því. Ég held að þetta séu þannig fjárhæðir í samhengi við til að mynda ráðstöfunarfé lífeyrissjóða að þetta hafi ekki afgerandi áhrif,“ segir Gunnar Baldvinsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×