Bílar

Þessir bílar tapa virði sínu hægast

Finnur Thorlacius skrifar
Porsche Cayenne heldur virði sínu best allra bíla í Bretlandi.
Porsche Cayenne heldur virði sínu best allra bíla í Bretlandi.
Hluti af kúnstinni að kaupa bíl með skynsömum hætti er að þekkja til þess hversu hratt hver bílgerð tapar virði sínu. Það hljómar skynsamlegt að kaupa bíl sem eyðir litlu og kostar lítið, en ef hann hrynur mjög hratt í virði fýkur sú skynsemi út í veður og vind.

Sem dæmi gæti bíll sem kostar 5 milljónir selst aðeins á 2 milljónir 5 árum seinna, en annar sem kostar 6 milljónir selst á 4 milljónir. Sá munur hefði réttlætt eldsneytiskostnað uppá 200.000 á hverju ári frá kaupum.

Mikill munur er á því hvað einstaka bílgerðir halda vel virði sínu og hefur bílatímaritið Auto Express í Bretlandi tekið saman lista þeirra 10 bílgerða sem halda best virði sínu þar í landi. Listinn er svona:

  1. Porsche Cayenne
  2. Audi Q3
  3. Range Rover Evoque
  4. Morgan Roadster
  5. Toyota Land Cruiser
  6. BMW X3
  7. Kia Sportage
  8. Lotus Exige
  9. Land Rover Discovery
  10. Audi A1
Margir af þessum bílum falla í lúxusbílaflokk og kosta því aðeins meira en bílar sem ekki flokkast þannig. Það gæti engu að síður borgað sig að fjárfesta í þeim bara vegna þess hversu hægt þeir falla í verði með árunum. Kia Sportage er líklega eini bíllinn á þessum lista sem ekki telst í lúxusbílaflokki og ber það vott um smíðagæði Kia.

Morgan Roadster og Lotus Exige eru sportbílar sem ekki er framleitt mikið af og gott virði þeirra sem notaðra bíla bæði helgast af því að þeir verða söfnunarbílar sem ekki er til mikið af og líka því að þeir eru vel smíðaðir. Dæmi eru um enn dýrari bíla að virði þeirra falli ekki neitt eða aukist með árunum. Það verður að teljast góð fjárfesting í þeim. Það krefst líka yfirleitt nokkurs fjármagns í upphafi, en á meðan er frábærs bíls notið. 






×