Matur

Kolla bakar Sylvíuköku - UPPSKRIFT

Eva Laufey skrifar
Eva Laufey sótti Kolbrúnu Björnsdóttur, fjölmiðlakonu heim í þættinum Höfðingjar heim að sækja.

Kolla bauð upp á svakalega góðar brauðbollur, ljúffengt BBQ kjúklingasalat og alvöru drottningaköku í desert.

Þessir réttir eiga það sameiginlegt að vera einfaldir og sérstaklega þægilegir. Réttirnir  hafa slegið í gegn á heimilinu hennar Kollu.

Ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir. Þið eigið bókað eftir að gera þær aftur og aftur.

Ömmu Kollu Bollur 

½ L Mjólk

100 g smjör

1 pakki þurrger (12 g hver poki)

900 g hveiti

½ tsk salt

60 g sykur

Aðferð:

Hitið mjólkina í potti við vægan hita (mjólkin á að vera volg). Bætið þurrgerinu út í mjólkina og látið standa í 4 – 5 mínútur. Bræðið smjörið við vægan hita. Blandið öllu saman og hnoðið deigið vel saman eða þar til deigið er slétt og samfellt. Leyfið deiginu að lyfta sér í 40 – 50 mínútur. Þá hnoðið þið deigið einu sinni enn og leyfið því að lyfta sér í 30 mínútur til viðbótar. Þegar deigið er tilbúið þá mótið þið litlar bollur eða lengjur úr deiginu. Pískið saman eitt egg og smá mjólk og penslið yfir. Gott er að sáldra grófu sjávarsalti yfir bollurnar áður en þær fara inn í ofn við 180°C í 8 – 10 mínútur eða þar til bollurnar eru orðnar gullinbrúnar.

Frábært BBQ kjúklingasalat með Doritos

4 kjúklingabringur, skornar í munnbita

Gott kjúklingakrydd t.d. Best á kjúklinginn

1 dl BBQ sósa

Salt og pipar, eftir smekk

1 poki klettasalat eða annað gott salat

1 rauðlaukur

1 askja kirsuberjatómatar

1 agúrka

Blaðlaukur, magn eftir smekk

Vínber, magn eftir smekk

1 paprika

½ poki furuhnetur, ristaðar

Aðferð:

Hitið smjör á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er eldaður í gegn. Kryddið kjúklinginn með góðu kryddi og hellið BBQ sósu yfir kjúklinginn rétt í lokin og leyfið honum að malla í 1 – 2 mínútur á pönnunni til viðbótar. Raðið klettasalatinu eða öðru góðu salati á fat og skerið annað grænmeti mjög smátt og setjið yfir salatið. Í lokin dreifið þið kjúklingabitunum yfir salatið og ristuðum furuhnetum. Berið salatið fram með dásamlegri BBQ sósu og Doritos flögum.

BBQ salatsósa

3 msk. Balsamik edik

3 msk. Agave síróp

1 krukka fetaostur (olían er notuð í sósuna og osturinn er borinn fram með salatinu)

4 msk. BBQ sósa

2 stór hvítlauksrif, pressuð

½ rauðlaukur, smátt saxaður

Sesamfræ, magn eftir smekk

Aðferð:

Blandið öllu saman í skál og berið fram með salatinu. Þessi sósa er mjög einföld og afskaplega góð, prófið hana gjarnan með fleiri réttum.

Sylvíukaka

2 egg

2 dl sykur

1 dl vatn

2 dl hveiti

2 tsk. lyftiduft

Glassúr

75 g. smjör

1 dl flórsykur

2 tsk. vanillusykur

1 eggjarauða

Kókosmjöl, magn eftir smekk

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°. Hrærið egg og sykur saman þar til deigið er létt og ljóst. Bætið vatninu saman við og hrærið snögglega. Bætið hveiti og lyftidufti út í og hrærið þar til deigið verður slétt. Setjið deigið í smurt bökunarform og bakið í 30 mínútur.

Á meðan kakan er í ofninum er glassúrinn gerður. Bræðið smjörið í litlum potti við vægan hita og hrærið sykri, vanillusykri og eggjarauðu saman við. Smyrjið kreminu á kökuna á meðan að hún er ennþá volg og stráið kókosmjöli yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.