Það var mögnuð upplifun að mæta á vigtun kappanna í gær. Það var mikil skemmtun og upplifun. Þetta var viðburður. Á sviðinu voru tvær léttklæddar stelpur ásamt White og nokkrum öðrum.
Bombandi tónlist var leikin er kapparnir mættu á svæðið og þeir sviku ekki með alls konar uppátækjum. White leiddi menn svo saman eða steig í sundur þegar á þurfti að halda. Öll atriði útfærð eftir kúnstarinnar reglum.
Þetta var skemmtun og afþreying. Fyrir það borgaði fólkið og það fékk vel fyrir peninginn. Áhorfendur létu einnig öllum illum látum og þeir voru bara að hita upp fyrir stóra kvöldið.
Ofanritaður hefur setið hundruði blaðamannafunda með alls konar þjálfurum og leikmönnum. Enginn þeirra funda komst í hálfkvisti við fundinn sem Dana White bauð upp á eftir vigtunina. Þessi var talsvert skemmtilegri.
Fundurinn var mjög óformlegur. White sat einn á stól á litlu sviði og ofan í honum stóð her fjölmiðlamanna. Þetta er reyndar yngsti hópur blaðamanna sem ég hef séð enda þar á ferð margir ungir menn sem halda úti vefsíðum og komu til Dublin á eigin forsendum.

White talaði mannamál. Þetta er harður nagli sem er í forsvari fyrir kröftugt sport. Hann var óspar á F-orðið þegar hann taldi sig þurfa að leggja áherslu á orð sín. Orðalagið "kick ass" var einnig vinsælt. Einnig kallaði hann einn þekktan blaðamann fávita þegar hann var ósáttur við framgöngu hans. Það var þó ekki sagt á mjög slæman hátt enda virtist það vera gleymt mínútu síðar er hann var farinn að brosa til hans.
Hann sagði skrítlur og fór létt með að vefja salnum um fingur sér. Hann hefur gríðarlega sterka nærveru og mátti sjá stjörnuglampann í augum margra viðstaddra.
White svarar öllum spurningum eins og maður og því skal engan undra að fundurinn hafi staðið í að minnsta kosti klukkustund. Það var þá sem ég hafði einfaldlega ekki meiri tíma og varð að yfirgefa salinn. Þá stóð enn meirihluta blaðamannanna fyrir framan hann að spyrja um allt og ekkert.
White er augljóslega fagmaður og stórskemmtilegur þess utan. Þetta partí sem hann stýrði í gær fær hæstu einkunn.
Ég get hreinlega ekki beðið eftir aðalatriðinu í kvöld þar sem okkar maður verður á meðal stjarna kvöldsins.
Gunnar Nelson mætir Zak Cummings í Dublin í kvöld. Þessi stórbardagi verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsending kl. 19:00. Fáðu þér áskrift á www.365.is.
