Lífið

Leikarinn James Garner látinn

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Stórleikarinn James Garner lést á heimili sínu í Los Angeles í gær, 86 ára að aldri. Þetta kemur fram á fréttasíðunni TMZ.

Samkvæmt síðunni var lögreglan kölluð að heimili leikarans klukkan átta í gærkvöldi en ekki er ljóst hvað dró hann til dauða. Hann fékk alvarlegt heilablóðfall árið 2008 og sást sjaldan meðal fólks eftir það.

James er hvað þekktastur fyrir að leika einkaspæjarann Jim Rockford í sjónvarpsþáttunum The Rockford Files sem sýndir voru á árunum 1974 til 1980. Hann lék í mörgum af áhættuatriðum þáttanna og þurfti að segja skilið við Rockford því hann þjáðist af hné- og bakeymslum.

Í hlutverki sínu í Rockford.
„Ég þoldi þetta ekki lengur. Í hverju hléi fór ég í hnéaðgerð í fimm ár í röð og stundum á báðum hnjám,“ lét James eitt sinn hafa eftir sér um þennan tíma.

James hlaut tilnefningu til Emmy-verðlaunanna sem besti leikari fyrir Rockford í fimm ár í röð og fékk verðlaunin árið 1977.

James á líka langan kvikmyndaferil að baki. Hann lék til að mynda í Murphy's Romance árið 1985 og fékk tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir frammistöðu sína.

Síðasta stórmyndin sem hann fór með veigamikið hlutverk í var The Notebook frá árinu 2004. Í henni lék hann Duke.

James skilur eftir sig eiginkonuna Lois en þau höfðu verið gift í 56 ár. Þá skilur hann einnig eftir sig dóttur og stjúpdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.