Á ráðherra að vera eða fara? Þorsteinn Pálsson skrifar 9. ágúst 2014 07:00 Lekamálið sem svo hefur verið kallað hefur vakið spurningar um hvort innanríkisráðherra hefði átt að víkja í tengslum við lögreglurannsókn sem beinst hefur að ráðuneytinu. Tilefnið er skjal með persónuupplýsingum sem ráðuneytið bar ábyrgð á að kæmu ekki fyrir almenningssjónir. En það gerðist og sú gáta er óleyst. Ríkissaksóknari bað um lögreglurannsókn sem ráðherra fagnaði. Í byrjun var þó ekki ljóst hvort ráðherrann átti frumkvæðið. Það er líka aukaatriði. En það er einstök staða að ráðuneyti og þar með ráðherra sæti sakamálarannsókn. Fyrrverandi ríkissaksóknari sagði fyrir viku að það væru síðustu forvöð fyrir ráðherra að segja af sér. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að þetta sé viðkvæmt mál og staðan sé óþægileg fyrir innanríkisráðherra. Jafnframt hefur hann sagt að ráðherrann hafi notið stuðnings hans í því að víkja ekki sæti. Lýsing formanns Sjálfstæðisflokksins á stöðu málsins er glögg og nokkuð raunsæ. Taka verður með í reikninginn að erfiðleikar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eru dýpri en þetta mál eitt gefur tilefni til meðal annars vegna þess að það var litið misjöfnum augum þegar hún reyndi að bregða fæti fyrir formanninn á lokametrum kosningabaráttunnar á síðasta ári. En um leið veitir þessi veikleiki henni nokkurt skjól. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins gengi hart fram nú er hætt við að einhverjir litu svo á að hann væri að nota tækifærið til að ná fram hefndum. Þá gæti samúð almenningsálitsins flust yfir á innanríkisráðherrann. Þetta sýnir vel hversu öfugsnúin pólitísk lögmál geta oft á tíðum reynst. Í þessu ljósi hefur Bjarni Benediktsson haldið vel á málinu og með yfirveguðum hætti. Samtöl um framgang rannsóknar Þegar málið fór af stað var það þannig vaxið að engar skýrar lagareglur mæltu fyrir um að ráðherra þyrfti að víkja. Ekki var þá séð að til ákvörðunar eða þess konar afskipta kæmi af hálfu ráðherra að ákvæði stjórnsýslulaga um hæfi til meðferðar einstaks máls ætti með ótvíræðum hætti við. Að baki vangaveltum um afsögn lágu því frekar pólitísk eða siðferðileg sjónarmið. Hafa þarf í huga að ráðherrar geta ekki vikið tímabundið eins og aðrir embættismenn þegar þannig stendur á að lögreglurannsókn beinist að þeim. Þeir segja formlega af sér og það er alfarið háð pólitískri stöðu hvort þeir eiga afturkvæmt. Árið 1932 tók nýr dómsmálaráðherra við embætti þótt lögreglurannsókn á atviki úr lögmannsstarfi hans stæði yfir. Hann var síðan dæmdur í undirrétti og sagði þá af sér. Rúmum mánuði síðar var hann sýknaður í Hæstarétti. Þingflokkur sjálfstæðismanna tilnefndi hann þá aftur sem ráðherra og staðgengillinn vék til hliðar. Nýlega var upplýst að innanríkisráðherra hefði á ákveðnum tímapunkti talið nauðsynlegt að eiga samtöl við lögreglustjórann um framgang rannsóknarinnar. Ráðherra segir að það hafi verið nauðsynleg og eðlileg samtöl. Ástæðulaust er að véfengja það. En um leið var þá komin upp ný staða. Er hér var komið sögu sýnast hæfisreglur stjórnsýslulaga hafa náð til málsins. Þegar ráðherra mat aðstæður með þeim hætti að slík samtöl væru óhjákvæmileg hefði hann þar af leiðandi átt að óska eftir því við forsætisráðherra að forseti Íslands skipaði annan ráðherra í ríkisstjórninni til þess að fara með yfirstjórn lögreglunnar að því er varðaði þessa tilteknu rannsókn og eiga þau samtöl sem nauðsynleg þættu. Setning ráðherra til meðferðar einstaks máls er vel þekkt eftir gildistöku stjórnsýslulaga fyrir tuttugu árum. Hún veikir ekki stöðu viðkomandi ráðherra, hvorki lagalega né pólitískt, en eyðir tortryggni. Huldumaður sveiflar sverði Hafi lögreglurannsóknin ekki leitt í ljós hver bar ábyrgð á því að skjalið umtalaða komst út úr ráðuneytinu þannig að hafið sé yfir allan vafa getur ríkissaksóknari ekki aðhafst. En málið er aftur á móti þannig vaxið að héðan af getur ráðherrann ekki sætt sig við að það sofni þannig án nokkurrar niðurstöðu. Megi ganga út frá því sem vísu að öryggisreglur innanríkisráðuneytisins séu í lagi hefur skjalið varla komist til vandalausra án atbeina starfsmanns þess. Einhver hefur komið skjalinu út úr ráðuneytinu og til vitundar aðila sem ekki er bundinn af opinberum reglum um þagnarskyldu. Hver sem þetta er þá er það svo að hann einn býr yfir þeirri vitneskju sem leyst getur ráðherrann úr klípunni. Þessi huldumaður er hinn raunverulegi ógnvaldur sem sveiflar sverðinu yfir höfði ráðherrans og sýnist gersamlega kæra sig kollóttan um pólitísk örlög hans. Ráðherrann þarf einfaldlega að geta hreinsað alla starfsmenn ráðuneytisins eða dregið einhvern þeirra til ábyrgðar. Takist það ekki gæti þrengst um varnir hans sjálfs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Lekamálið Þorsteinn Pálsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Lekamálið sem svo hefur verið kallað hefur vakið spurningar um hvort innanríkisráðherra hefði átt að víkja í tengslum við lögreglurannsókn sem beinst hefur að ráðuneytinu. Tilefnið er skjal með persónuupplýsingum sem ráðuneytið bar ábyrgð á að kæmu ekki fyrir almenningssjónir. En það gerðist og sú gáta er óleyst. Ríkissaksóknari bað um lögreglurannsókn sem ráðherra fagnaði. Í byrjun var þó ekki ljóst hvort ráðherrann átti frumkvæðið. Það er líka aukaatriði. En það er einstök staða að ráðuneyti og þar með ráðherra sæti sakamálarannsókn. Fyrrverandi ríkissaksóknari sagði fyrir viku að það væru síðustu forvöð fyrir ráðherra að segja af sér. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að þetta sé viðkvæmt mál og staðan sé óþægileg fyrir innanríkisráðherra. Jafnframt hefur hann sagt að ráðherrann hafi notið stuðnings hans í því að víkja ekki sæti. Lýsing formanns Sjálfstæðisflokksins á stöðu málsins er glögg og nokkuð raunsæ. Taka verður með í reikninginn að erfiðleikar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eru dýpri en þetta mál eitt gefur tilefni til meðal annars vegna þess að það var litið misjöfnum augum þegar hún reyndi að bregða fæti fyrir formanninn á lokametrum kosningabaráttunnar á síðasta ári. En um leið veitir þessi veikleiki henni nokkurt skjól. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins gengi hart fram nú er hætt við að einhverjir litu svo á að hann væri að nota tækifærið til að ná fram hefndum. Þá gæti samúð almenningsálitsins flust yfir á innanríkisráðherrann. Þetta sýnir vel hversu öfugsnúin pólitísk lögmál geta oft á tíðum reynst. Í þessu ljósi hefur Bjarni Benediktsson haldið vel á málinu og með yfirveguðum hætti. Samtöl um framgang rannsóknar Þegar málið fór af stað var það þannig vaxið að engar skýrar lagareglur mæltu fyrir um að ráðherra þyrfti að víkja. Ekki var þá séð að til ákvörðunar eða þess konar afskipta kæmi af hálfu ráðherra að ákvæði stjórnsýslulaga um hæfi til meðferðar einstaks máls ætti með ótvíræðum hætti við. Að baki vangaveltum um afsögn lágu því frekar pólitísk eða siðferðileg sjónarmið. Hafa þarf í huga að ráðherrar geta ekki vikið tímabundið eins og aðrir embættismenn þegar þannig stendur á að lögreglurannsókn beinist að þeim. Þeir segja formlega af sér og það er alfarið háð pólitískri stöðu hvort þeir eiga afturkvæmt. Árið 1932 tók nýr dómsmálaráðherra við embætti þótt lögreglurannsókn á atviki úr lögmannsstarfi hans stæði yfir. Hann var síðan dæmdur í undirrétti og sagði þá af sér. Rúmum mánuði síðar var hann sýknaður í Hæstarétti. Þingflokkur sjálfstæðismanna tilnefndi hann þá aftur sem ráðherra og staðgengillinn vék til hliðar. Nýlega var upplýst að innanríkisráðherra hefði á ákveðnum tímapunkti talið nauðsynlegt að eiga samtöl við lögreglustjórann um framgang rannsóknarinnar. Ráðherra segir að það hafi verið nauðsynleg og eðlileg samtöl. Ástæðulaust er að véfengja það. En um leið var þá komin upp ný staða. Er hér var komið sögu sýnast hæfisreglur stjórnsýslulaga hafa náð til málsins. Þegar ráðherra mat aðstæður með þeim hætti að slík samtöl væru óhjákvæmileg hefði hann þar af leiðandi átt að óska eftir því við forsætisráðherra að forseti Íslands skipaði annan ráðherra í ríkisstjórninni til þess að fara með yfirstjórn lögreglunnar að því er varðaði þessa tilteknu rannsókn og eiga þau samtöl sem nauðsynleg þættu. Setning ráðherra til meðferðar einstaks máls er vel þekkt eftir gildistöku stjórnsýslulaga fyrir tuttugu árum. Hún veikir ekki stöðu viðkomandi ráðherra, hvorki lagalega né pólitískt, en eyðir tortryggni. Huldumaður sveiflar sverði Hafi lögreglurannsóknin ekki leitt í ljós hver bar ábyrgð á því að skjalið umtalaða komst út úr ráðuneytinu þannig að hafið sé yfir allan vafa getur ríkissaksóknari ekki aðhafst. En málið er aftur á móti þannig vaxið að héðan af getur ráðherrann ekki sætt sig við að það sofni þannig án nokkurrar niðurstöðu. Megi ganga út frá því sem vísu að öryggisreglur innanríkisráðuneytisins séu í lagi hefur skjalið varla komist til vandalausra án atbeina starfsmanns þess. Einhver hefur komið skjalinu út úr ráðuneytinu og til vitundar aðila sem ekki er bundinn af opinberum reglum um þagnarskyldu. Hver sem þetta er þá er það svo að hann einn býr yfir þeirri vitneskju sem leyst getur ráðherrann úr klípunni. Þessi huldumaður er hinn raunverulegi ógnvaldur sem sveiflar sverðinu yfir höfði ráðherrans og sýnist gersamlega kæra sig kollóttan um pólitísk örlög hans. Ráðherrann þarf einfaldlega að geta hreinsað alla starfsmenn ráðuneytisins eða dregið einhvern þeirra til ábyrgðar. Takist það ekki gæti þrengst um varnir hans sjálfs.