Lífið

Kallaður "helvítis hommadjöfull“

Ellý Ármanns skrifar
Vilhjálmur Þór Davíðsson sagði foreldrum sínum að hann væri samkynhneigður í byrjun árs 2008, þá 21 árs gamall, en þá gjörbreyttist líf hans til hins betra.

Vilhjálmur gaf okkur leyfi til að birta pistil af blogginu hans, sem ber yfirskriftina Fögnum fjölbreytileikanum. Þar skrifar hann í einlægni um vægast sagt erfiða reynslu sem hann upplifði í æsku. Hér er hugleiðing Vilhjálms í heild sinni:



Vill að fólk opni augun

Þar sem þessi mikla umræða um fordóma og einelti gegn samkynhneigðum er búin að vera ansi mikið í deiglunni núna, þá langar mig að segja ykkur aðeins frá mér og minni æsku. Ég vil að fólk opni augun aðeins og átti sig á því að á bak við falleg bros eru oft klofin hjörtu.   Eins og þið vitið sennilega öll, þá er ég uppalinn á Ólafsfirði, og á einn eldri bróðir og eina yngri systur en nú hefst frásögnin:

Öll mín æskuár var ég kafi í íþróttum, skíðum, fótbolta og í raun öllu því sem hægt var að æfa í fallega bænum mínum, ég var nú yfirleitt frekar slappur íþróttamaður og fann að ég átti ekki samleið nema að mjög svo vissu leyti með liðsfélögum mínum, ég var ávallt miðlungsmaður í öllum þeim íþróttum sem ég keppti í, ekki góður, en heldur ekki lélegur.

Öll mín bernskuár í fótbolta gengu mest til mjög vel og alveg átakalaust þangað til ég verð svona 14 til 15 ára að ég fer að heyra frá þeim sem með mér æfðu fótbolta niðrandi orð um samkynhneigð, orð eins og helvítis hommadjöfull„ og faggi“ koma upp í hugann, þegar maður skoraði ekki úr púrafæri eða það slapp einhver í gegnum vörnina hjá manni þá fengu þess orð að njóta" sín hvað mest.

Svo fara þessi orð að heyrast á göngum skólans, maður heyrir hvíslað að maður sé „hommi“, á mann er kallað „faggi“ og þar fram eftir götunum, aldrei minnist ég þess þó að hafa lent í einhverjum slagsmálum út af þessum nafnaköllum en að heyra þessi orð notuð á niðrandi hátt dag eftir dag, fær mann á endanum til þess að trúa því, að það sem maður ER, að það sé „rangt“ og og maður sé bara ekki réttur“ eins og allir hinir, þetta varð til þess að flestar af mínum æskuminningum sem tengjast gagnfræðaskólanum og mínu félagslífi eru bara ekkert svo góðar.

Myrkrið helltist yfir í gagnfræðaskóla

Mér fannst ég alltaf vera utanveltu hvar sem ég var og sama með hverjum ég var, ég sótti mikið til mömmu, ömmu og Helgu frænku, þar var mitt skjól og þar var ég ekki kallaður hommi eða faggi, þar fann ég bara þá ást og væntumþykju sem ég þurfti að finna. Mér fannst ég vera bara ég hjá þeim og enginn sagði neitt við því.

Það myrkur sem helltist svo yfir mig þegar ég er að klára gagnfræðaskólann og byrja minn framhaldsskólaferil, er svo dimmt og þungt í minningunni að það trúir sennilega enginn því sem mig þekkir, ég hef ávallt verið þekktur fyrir að vera glaðvær og hress og alltaf í góðu skapi, en frá svona já 15 til 18 ára aldurs fannst mér allt ómögulegt. Mér gekk ekki vel í skóla, var hættur í öllum íþróttum og átti í miklu stríði innra með mér um hver ég væri í rauninni.

Hætti í skólanum

Ég hætti á endanum í skólanum og flyt aftur heim til Ólafsfjarðar frá Akureyri þá sem ég var í framhaldsskóla, það sumar, og það sem fram fór í höfðinu á mér þá, það vonandi mun aldrei koma aftur, hugsanir um að best væri sennilega fyrir alla að ég myndi bara enda mitt líf, það var orðið í mínum huga sú eina lausn sem í boði var, guði sé lof þá lét ég ekki undan þeim hugsunum mínum, sem þó sóttu sífellt meira og meira á mig. Mér fannst ég hvergi passa og hvergi vera pláss fyrir mig, mér fannst ég vera utanveltu og var þess fulllviss að ég myndi aldrei eiga hamingjusamt líf, uppfullt af ást og kærleika.

Frelsandi að koma út úr skápnum

Fyrir mér var slíkt líf bara ekki til! það var allavega það langt í burtu að mér fannst það vera draumsýn ein. Á þessum tíma var ég byrjaður að spjalla við stráka úr Reykjavík á netinu, ég fékk endalaust að heyra frá þeim hvað það væri frelsandi að koma út úr skápnum og lífið væri svo æðislegt þegar maður væri kominn út.

Ég var viss um að það væri nú bara svona frábært og æðislegt að koma út úr skápnum í borginni og þar væri miklu meira umurðarlyndi gagnvart samkynhneigðum, og að í mínu tilfelli yrði það hreint helvíti, mér yrði hent út á götu og enginn myndi neitt vilja af mér vita! Ég tók þá meðvituðu ákvörðun um haustið þetta ár að ég ætti jafn mikinn rétt á að vera hamingjusamur og lifa sáttur í mínu sjálfi, en ég var líka alveg handviss um að það gæti ég ekki látið gerast á meðan ég væri í svona mikilli yfirþyngd og með sjálfstraustið í algjöru lágmarki.

Ákvað að taka sig í gegn og treysta vinkonu

Ég bað vinkonu mína að gera fyrir mig æfingarplan og hjálpa mér af stað, sem hún svo gerði og fæ ég henni aldrei fullþakkað fyrir það. Með hverju kílóinu sem ég missti og minnkandi gallabuxnastærðum sem ég klæddist, þá óx sjálfstraust mitt og ég fann að mér var farið að vera meira sama um hvort fólk vissi hvernig ég væri.

Það er svo rétt fyrir jólin 2007 sem ég ákveð að segja Laufey, stelpu sem ég var að vinna með, frá því að ég væri hommi. Hún var sú fyrsta af þeirri ástæðu að ég fann það bara allt í einu að þarna á þessum punkti þyrfti ég að segja frá þessu.

Það tók mig sennilega ekki nema svona 45 mínútur að koma þessu frá mér og vissi hún nú alveg á hverju var von held ég.

Fullkomlega sáttur í dag

14. janúar 2008 var dagurinn sem ég fæddist uppá nýtt. Það er dagurinn sem ég segi foreldrum mínum frá því að ég sé hommi, sá léttir og sú ró sem kom yfir mig þegar ég sagði þeim frá þessu, er bara alveg ólýsanleg.

Ég trúði því þá sem mér hafði verið sagt um frelsistilfinninguna. Mér fannst á því mómenti sem ég sagði mömmu að ég væri hommi vera mómentið þar sem ég varð loks ÉG. Í dag lifi ég svo fullkomlega sáttur við mitt innra sjálf og fagna því að fá að upplifa þetta fallega líf með ykkur, þið megið trúa því að það er ansi löng sú ferð, að fara frá því að vera lítill“ feitur og bólugrafinn skápahommi á Ólafsfirði og að því að verða krýndur Herra Hinseginn 2010 og fara svo í það vinna draumastarfið með yndislegu fólki í háloftunum.

Lítil eyru heyra allt 

Mig langar með þessum pistli mínum að veita ykkur smá innsýn inn í þann heim sem ég upplifði á mínum unglingsárum, mitt bros var minn skjöldur ansi oft. Ég hef hér sagt ykkur frá mjög svo persónulegum hlutum sem ég hef ekki deilt með neinum áður en það má vel vera að þið séuð að spyrja ykkur af hverju ég sé að skrifa þetta - ástæðan er einföld; Það er mín ósk að börn muni ekki þurfa að hlusta á það frá samnemendum eða jafnvel heima fyrir að það sé ógeðslegt að vera hommi eða lesbía.

Munið það að lítil eyru heyra allt og taka allt inn á sig. Það er okkar að láta börn og unglinga þessa lands vita að þau eru fullkominn nákvæmlega eins og þau eru, óháð kynhneigð, húðlit eða líkamsástandi. Fögnum fjölbreytileikanum og verum góð hvert við annað.  

Hér er blogg Vilhjálms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.