Lífið

Sjómannshúfa 66 Norður sló óvart í gegn

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Húfurnar frá 66° Norður komu sér vel á Þjóðhátíðinni í ár.
Húfurnar frá 66° Norður komu sér vel á Þjóðhátíðinni í ár. Instagram/steinunne
Vinsældirnar komu okkur óneitanlega mjög skemmtilega á óvart," segir Bjarney Harðardóttir, markaðsstjóri 66°Norður, en sjómannshúfan svokallaða hefur slegið rækilega í gegn í sumar.

Það má segja að vinsældirnar hafi náð algjöru hámarki um verslunarmannahelgina og var húfan nánast á öðrum hverjum kolli á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Bjarney segir starfsmenn fyrirtækisins hafa haft einstaklega gaman af því að fylgjast með myndum og myndskeiðum frá Þjóðhátíðinni.

„Það er búið að ræða þetta töluvert hér innanhúss, ég neita því ekki. Þetta er líka mjög skemmtilegt í ljósi þess að húfan hefur verið til sölu hjá okkur í marga áratugi. Ég spurði starfsmann sem unnið hefur hjá okkur í 40 ár og húfurnar voru komnar fyrir hennar tíð."

Hún segir húfurnar lengst af hafa verið notaðar af sjómönnum en að þær henti einstaklega vel í sjávarplássi eins og í Vestmannaeyjum.

„Þessi sjófatnaður okkar á í raun einstaklega vel við yfir verslunarmannahelgina í íslenska veðrinu og gaman að sjá að fólk sé tilbúið að vera í þessu. Það er þó svolítið fyndið að hugsa til sjómannanna sem ætluðu kannski að fjárfesta í nýrri húfu fyrir næsta túr en þá var allt uppselt." 
Húfukollan kemur í mörgum litum.Facebook/66north
Hún segir ástæðu vinsældanna algjörlega óljósa. „Við vitum í raun og veru ekkert af hverju húfan varð vinsæl. Það er eins og einhver einn út í bæ hafi skellt henni á sig og einhver keðjuverkun myndast í kjölfarið. Annars eru þær ódýrar svo kannski er það verðlagið."

Bjarney hefur ekki nákvæma tölu yfir þær húfur sem seldust fyrir verslunarmannahelgina en segir að ákveðið hafi verið að panta mun fleiri inn þegar þau sáu í hvað stefndi. "Við seldum gríðarlegt magn af þessu. Veðurspáin var líka ekkert sérstök svo það hefur eflaust spilað eitthvað inn í líka."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.