Handbolti

Íslenskur sigur í Póllandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið vann góðan sigur í dag.
Íslenska liðið vann góðan sigur í dag. Mynd/http://eurohandballpoland2014.pl
Ísland vann fjögurra marka sigur á Rússlandi, 40-36, á EM U-18 ára landsliða sem haldið er í Póllandi. Staðan í hálfleik var 20-17, Rússlandi í vil, en íslensku strákarnir sneru dæminu við í seinni hálfleik, sem þeir unnu 23-16.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með 11 mörk. Hákon Daði Styrmisson skoraði sex mörk, Leonharð Harðarson fimm og Egill Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson fjögur mörk hvor.

Ísland leikur sinn síðasta leik í milliriðli gegn Makedóníu á morgun, en með jafntefli eða sigri tryggir Ísland sér efsta sætið í riðlinum. Liðið sem vinnur milliriðil 1 mætir liðinu sem lendir í öðru sæti í milliriðli 2 á föstudaginn um réttinn til að spila um 9.-10. sæti, en bæði sætin gefa sæti á HM á næsta ári.

Með öðrum orðum: vinni Ísland eða geri jafntefli á morgun og vinni svo leikinn á föstudaginn kemst liðið á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×