Lífið

Miðinn á Justin Timberlake virkar í strætó

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margir vilja meina að Justin Timberlake sé stærsta tónlistarnafnið til að sækja Ísland heim á hátindi ferils síns.
Margir vilja meina að Justin Timberlake sé stærsta tónlistarnafnið til að sækja Ísland heim á hátindi ferils síns. Vísir/Getty
Ef fjórir koma saman í bíl á tónleika Justin Timberlake í Kórnum fá þeir að leggja í stæði næst Kórnum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í upplýsingum frá Senu varðandi tónleika bandaríska tónlistarmannsins í Kópavogi.

Tónleikarnir fara fram sunnudaginn 24. ágúst og er löngu uppselt á þá. Reikna má með því að talsvert umferðaröngþveiti geti skapast í Kórahverfinu í Kópavogi vegna tónleikanna. 16 þúsund miðar seldust á innan við klukkustund.

Tónleikagestir eru hvattir til að ganga eða hjóla á tónleikastað, nota leigubíla, almenningssamgöngu eða deila einkabílum. Sena ætlar að koma til móts við þá sem velja slíka kosti, þ.e. eru umhverfisvænir og hagkvæmir. Þeir sem sýna tónleikamiðann sinn í Strætó fá til að mynda frítt far frá klukkan 14 á tónleikadag. Geta þeir því bæði komist ókeypis til og frá Kórnum.

Deili fjórir eða fleiri bíl gefst þeim kostur á að leggja í stæði næst Kórnum að því gefnu að stæði sé laust. Allir í bílnum þurfa þó að framvísa miða til að eiga kost á stæðunum.

„Áríðandi er að þeir sem ætla að nýta sér þessi stæði komi frá Vífilstaðavegi. Ef það verður orðið fullt verður bílum vísað í stæði við Smáralind,“ segir í leiðbeiningum Senu.

Reiknað er með því að Justin Timberlake taki öll sín frægustu lög.Vísir/Getty
Tvenn bílastæði verða innan hverfisins fyrir þá sem mæta á bílum. Annars vegar á svæði Spretts, næst húsinu. Þar verða bílastæði fyrir bíla sem eru með fjórum farþegum eða fleiri í og létt ökutæki á borð við vespur og mótorhjól. Hins vegar við Urðarhvarf og svæðið þar fyrir ofan.

Þá geta tónleikagestir lagt við Smáralind þar sem finna má um 3000 bílastæði eða við íþróttahúsið Fífuna.

Reglulegar strætóferðir verða frá bílastæðum Smáralindar og Urðarhvarfs að tónleikasvæðinu frá kl. 16:00 á tónleikadag. Þeir sem leggja við Fífuna geta gengið að bílastæðunum við Debenhams í Smáralind og náð strætisvagni á tónleikasvæðið.

Þeir sem hyggjast skutla unglingum eða öðrum á tónleikana eru hvattir til að stoppa við bílastæði Smáralindar eða Urðarhvarfs. Þaðan ganga strætisvagnar reglulega á tónleikasvæðið. Þá verða bílastæði fyrir hreyfihamlaða alveg upp við Kórinn og sérstakt pláss fyrir hjólastóla aftast í stúkunni. Einn fylgdarmaður fær aðgang í stúkuna. Bílar á vegum ferðaþjónustu fatlaðra fá aðgang alveg upp að Kór.


Tengdar fréttir

Kostar sitt að flytja inn Justin Timberlake

Kostnaðurinn við að fá Justin Timberlake til landsins er um 1,5 milljónir dollara eða 170 milljónir íslenskra króna en frá því er greint í Viðskiptablaðinu í dag.

Enn til miðar á JT tónleikana

Þeir sem ætla að skella sér til Vestmannaeyja um helgina geta svo sannarlega dottið í lukkupottinn.

Miði.is hrundi vegna álags

Miði.is reynir nú eftir fremsta megni að koma kerfinu í gang aftur, svo miðasala geti haldið áfram.

Uppselt á Justin Timberlake

16.000 miðar voru í boði á tónleikana. "Það er enginn möguleiki á að það verði fleiri miðar í boði, því miður.“

Íslenskt upphitunaratriði á tónleikum JT

Íslenskt tónlistaratriði mun sjá um upphitun á tónleikum Justins Timberlake í sumar. Forsala hefst á morgun en aðeins helmingur miðanna mun fara í almenna sölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.