Roger Federer komst án mikilli vandræða í aðra umferð opna bandaríska meistaramótsins í tennis í gær þegar hann vann Ástralann MarinkoMatosevic í þremur settum; 6-3, 6-4 og 7-6 (7-4).
Í annarri lotu þegar staðan var 5-3 (30-0) fyrir Federer skoraði hann hjá Matosevic með ævintýralegu höggi á milli fóta sér, en Svisslendingurinn hefur nánast gert þessi högg að listgrein.
Ástralinn hélt að hann væri búinn að sigra Federer í stuttri rispu með góðu höggi framhjá honum er þeir börðust upp við netið. Boltinn datt á endalínuna, en þar var Federer mættur og sló boltann til baka á milli fóta sér.
Matosevic var búinn að ákveða að stigið væri í höfn og sneri því baki í Federer, en það heppnaðist ekki betur en svo að Ástralinn fékk boltann í afturendann.
Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan var á meðal áhorfenda á Flushing Meadows í New York, en Federer frumsýndi nýja skó í gær sem framleiddir eru af fyrirtæki Jordans.
Hann gat ekki annað en hlegið þegar hann sá þennan magnaða tenniskappa bjóða upp á annað eins högg á risamóti.
Sport