Lífið

Bill Gates mættur á Timberlake

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Vísir/Getty
Milljarðamæringurinn Bill Gates er staddur hér á landi og mun vera gestur á tónleikum Justin Timberlake sem fara fram á sunnudagskvöld. Bill Gates kom hingað til lands á einkaþotu sinni og mun eyða helginni hér á landi áður en hann fer á tónleikana, sem eru síðustu tónleikar Timberlake í Evrópu en söngvarinn heldur til Ástralíu eftir að spila í Kórnum.

Samkvæmt heimildum Vísis þekkjast Timberlake og Gates og munu þeir eyða tíma saman hér á Íslandi, áður en söngvarinn heldur áfram á tónleikaferðalagi sínu. Timberlake lenti hér á landi fyrr í dag en hann ferðaðist í stórri dökkblárri einkaþotu. Að sögn sjónarvotta var hann með húfu og sólgleraugu þegar hann steig út úr vélinni. Mikill fjöldi fylgdi honum eftir.

Sögusagnir eru á kreiki þess efnis að fleiri erlendar stjörnur séu hér á landi. Talið er að Jessica Biel, eiginkona Justin Timberlake, muni vera gestur á tónleikunum hans. Þau giftu sig á Ítalíu fyrir tveimur árum síðan.

Beðið er eftir tónleikum Timberlake á sunnudagskvöld með mikilli eftirvæntingu. Tónleikunum verður sjónvarpað í gegnum vefsíðuna Yahoo um gjörvallan heim og er fjölmennt tæknilið statt hér á landi vegna þess. Löngu er uppselt á tónleikana og verður umferð um Kórahverfið takmörkuð verulega á sunnudaginn. Þá munu eingöngu íbúar hverfisins fá leyfi til þess að aka um hverfið. Tónleikagestir eru hvattir til þess að koma gangandi eða á hjóli. Þeir sem koma á bílum geta lagt á tilteknum svæðum í Kópavogi og þaðan verða tíðar strætóferðir, tónleikagestum að kostnaðarlausu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.