Sport

Sorglegt að gera grín að manni sem kann ekki að lesa

Fitty og Mayweather þegar þeir voru enn vinir.
Fitty og Mayweather þegar þeir voru enn vinir. vísir/getty
Boxarinn Floyd Mayweather er æfur út í rapparann 50 Cent eftir að sá síðarnefndi gerði grín að honum þar sem Mayweather virðist ekki kunna að lesa.

50 Cent lofaði að gefa 750 þúsund dollara til góðgerðarmála ef Mayweather tækist að lesa eina síðu í Harry Potter-bók án þess að stama.

Þessi stríðni rapparans kemur í kjölfar þess að útvarpsstöð lak upptöku af Mayweather þar sem hann er að rembast við að lesa stuttan texta með afar lélegum árangri.

„Að gera grín að manni fyrir að kunna ekki að lesa er ekki fyndið. Það er sorglegt. Sirkus er fyrir trúða. Mitt starf er að hugsa um hnefaleika," sagði Mayweather reiður.

Hann svaraði síðan á Twitter með því að monta sig enn og aftur af því hversu ríkur hann væri: „Lesið þetta," skrifaði Mayweather á Twitter og birti mynd af ávísunum upp á 72 milljónir dollara.

„Ég fæ ekki greitt fyrir að lesa útvarpsstiklur. Ég væri frábær í að lesa ef það væri það sem til þyrfti að færa mat á borð fjölskyldunnar. Ég er ekki fréttaþulur og hef aldrei haldið því fram að ég sé slíkur."

Mayweather er að fara að keppa við Marcos Maidana en þetta rifrildi við 50 Cent hefur stolið athyglinni frá sjálfum bardaganum.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×