Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - FH 24-28 | Kröftugur sigur FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Safamýri skrifar
FH vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu er liðið lagði Fram í Safamýrinni. Góður varnarleikur og kröftugar lokamínútur tryggðu gestunum stigin tvö.

Valgarður Gíslason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Safamýrinni og smellti af myndum sem sjá má hér að ofan.

FH var lengst af með undirtökin í leiknum en Framarar voru þó vel inni í leiknum lengst af. FH-ingar náðu þó að þétta vörnina vel síðustu mínúturnar tryggja sér þannig góðan sigur.

Kristófer Fannar Guðmundssson átti stórleik í marki Fram en það dugði ekki til.

Framarar áttu erfitt uppdráttar í upphafi leiks og töpuðu boltanum ítrekað í sókninni. Fyrir vikið skoraði liðið aðeins tvö mörk á fyrstu tíu mínútunum. En þá fór Kristófer Frannar að verja og Framarar komu sér inn í leikinn með þremur mörkum í röð.

Jafnræði var með liðunum eftir þetta en FH-ingar þó yfirleitt skrefinu framar þökk sé fínum varnarleik. Markvarslan náði þó ekki að fylgja með fyrr en að Ágúst Elí kom inn á og stóð vaktina síðustu mínútur hálfleiksins.

Bæði lið mættu grimm til leiks í síðari hálfleik og var jafnt á flestum tölum framan af. Sóknarleikurinn gekk betur hjá báðum liðum en þegar FH-ingar náðu að herða tökin í vörninni á ný virtist sem að gestirnir myndu sigla fram úr.

Kristófer Fannar steig þá upp á nýjan leik og hélt möguleikum sinna manna á lífi með hverri stórmarkvörslunni á fætur annarri á lokamínútum leiksins. FH-ingar geta nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt færin sín betur en gerðu þó nóg til að klára dæmið og landa sigri.

Markaskorun FH dreifðist vel á milli manna og þá átti Ágúst Elí fína innkomu í markið. Vörnin var þó aðalsmerki FH-inga og ljóst að eftir að hún pússast enn betur saman verður hún óárennileg.

Framarar eru með ungt lið og nokkur „haustbragur“ á leik liðsins, sér í lagi í sókninni. Haldi Guðlaugur rétt á spilunum er þó ljóst að liðið mun ná í sín stig í vetur, sérstaklega þegar Kristófer Fannar er í þeim ham sem hann var í í dag.

Halldór hafði sigur á sínum gamla heimavelli.Vísir/Valli
Halldór Jóhann: Strákarnir eru fórnfúsir

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var ánægður með að hafa unnið Fram á sínum gamla heimavelli.

„Hér var ég í sjö ár, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari. Ég hef miklar tilfinningar til þessa félags,“ sagði hann.

„Ég hugsa þegar við horfum á leikinn í heild sinni getum við verið sáttir. Fram er með gott varnarlið og við náðum samt að vinna þá einn gegn einum og með okkar sprengikrafti. Það var mjög jákvætt.“

Hann segist ekki hafa verið ánægður með varnarleik sinna manna gegn ÍBV lengst af en annað hafi verið uppi á teningnum í dag.

„Ég var ánægður með vörnina í 45 mínútur í dag. Þetta eru ungir strákar sem mikið býr í og ég er ánægður með að þeir eru tilbúnir að gefa allt sitt í þetta og fórna sér fyrir næsta mann.“

„En tímabilið er langt og menn þurfa að halda dampi. Það er strax erfiður leikur á fimmtudag. Ég hef þó fulla trú á að menn haldi einbeitingunni í góðu lagi.“

Ísak Rafnsson skoraði eitt mark í dag en sýndi efnileg tilþrif í sókninni. Hann býr yfir miklum skotkrafti og segir Halldór Jóhann að það þurfi að leiðbeina honum eins og öðrum.

„Hann er stór og mikill. Hann þarf kennslu og við ætlum að hjálpa honum með það. Hann hitti ekki nógu vel í dag en átti mjög góðan leik gegn ÍBV. Þannig er það oft með unga og kraftmikla leikmenn.“

Kristófer átti frábæran leik í marki Fram.Vísir/Valli
Kristófer Fannar: Kæruleysi í sókninni

Framarar náðu ekki að nýta sér stórleik Kristófers Fannars í marki liðsins í dag en hann varði 22 skot í tapinu gegn FH í kvöld.

„Það er leiðinlegt að hafa ekki unnið hér í kvöld, sérstaklega miðað við að við unnum þriggja marka forystu í síðari hálfleik. Þá hélt ég að þetta væri komið hjá okkur,“ sagði hann við Vísi eftir leikinn.

Hann sagði að vörn Fram hafi verið frábær gegn Haukum í síðustu viku og að Framarar séu með gott varnarlið. „En svona er þetta bara. Tímabilið er nýbyrjað og ef til vill eðlilegt að menn eigi misgóða daga. Við spiluðum ekki nógu vel í dag.“

„Við vorum þar að auki kærulausir í sókninni og köstuðum boltanum ítrekað frá okkur. Þá fóru FH-ingar fljótir að keyra á okkur með hraðaupphlaupum.“

„FH-ingar eru með flott lið og enginn heimsendir að tapa fyrir þeim. Við erum með tvö stig eftir tvo leiki og getum ekki grenjað yfir því.“

Guðlaugur ásamt Haraldi Þorvarðarsyni, aðstoðarmanni sínum.Vísir/Valli
Guðlaugur: Enn mikil vinna eftir

„Mér fannst við vera í stöðu til að fá eitthvað úr leiknum þegar tíu mínútur voru eftir,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, eftir tapið gegn FH í kvöld.

Fram vann Hauka í fyrstu umferðinni fyrir helgi og segir Guðlaugur að hans menn hafi verið beittari þá en nú. „Við gerðum færri mistök og vantaði aðeins upp á hjá okkur, bæði í vörn og sókn. Við töpum líka mun fleiri boltum í dag og það er erfitt fyrir okkur.“

„Þegar við byrjum óagað í sókninni eins og við gerum í dag töpum við mörgum boltum og fáum hraðaupphlaup í bakið. Það er afar dýrt.“

Hann segir að FH-ingar hafi náð að leysa varnarleik Fram vel á síðustu tíu mínútum leiksins sem hafi gert útslagið. „Vörnin hefur verið okkar helsti styrkleiki og þegar hún er ekki í lagi lendum við í vandræðum.“

Framarar eiga þó marga unga og efnilega leikmenn, líkt og skytturnar Ólaf Ægi og Sigurð Örn. Þeir náðu þó ekki sínu besta fram í dag (fimm mörk í sautján skotum) en sýndu að þeir eiga mikið inni.

„Þeir hafa sýnt að þeir eru tilbúnir fyrir stóra sviðið en það er samt fullt af hlutum sem við þurfum að vinna betur í. Við erum ekki komnir á liðið á þann stað sem við viljum hafa það. Það er enn mikil vinna eftir.“

FH-ingar eru með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Olís-deildinni.Vísir/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×