Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: HK - Fram 31-22 | HK valtaði yfir Fram

Anton Ingi Leifsson í Digranesi skrifar
Kristófer Fannar Guðmundsson ver mark Fram.
Kristófer Fannar Guðmundsson ver mark Fram. Vísir/Andri Marinó
HK vann Fram í botnslag Olís-deildar karla í kvöld, en sterk byrjun heimamanna á síðari hálfleik lagði grunninn að sigrinum. Guðni Már Kristinsson lék á alls oddi fyrir Kópavogsliðið.

Leikurinn var mjög jafn nánast allan leikinn, en sterkur kafli undir lok fyrri hálfleiks var lykillinn að því að Kópavogsbúar tóku stigin tvö með sér til búningsherbergja.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik. Liðin héldust að nánast allan fyrri hálfleikinn, en leikurinn var alls ekki mikið fyrir augað. Klaufaleg mistök á báða bóga og varnarleikurinn var ekkert til að hjálpa markvörðunum sem voru einungis komnir með eitt skot varið eftir tíu mínútur í fyrri hálfleik.

Eftir stundarfjórðung var staðan jöfn, 7-7 og sex mínútum síðar var hún 11-11. Þá tóku heimamenn við sér og skoruðu næstu tvö mörk og virtust aðeins vera slíta frá sér gestina. Bláklæddir gestirnir voru ekki á sama máli og skoruðu þrjú næstu mörk og leiddu með einu marki í hálfleik, 13-14.

Samtals höfðu markmennirnir einungis varið ellefu skot í fyrri hálfleik, en þeir tóku aðeins við sér undir lok fyrir hálfleiks eftir dapra byrjun. Það var forvitnilegt að sjá hvað myndi gerast í síðari hálfleik - en það var viðbúið að það lið sem myndi fá betri markvörslu myndi sigla sigrinum heim, svo jafn var leikurinn.

Heimamenn byrjuðu vel í síðari hálfleik og skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfeiks og komust tveimur mörkum yfir. Guðlaugi Arnarssyni, þjálfari Fram, var nóg boðið þegar Framarar voru komnir þremur mörkum undir eftir rúmar tíu mínútur í síðari hálfleik og tók leikhlé, en allt annað var að sjá Framara í upphafi síðari hálfleiks en í þeim fyrri.

Eftir leikhléið skánuðu hlutirnir ekkert hjá gestunum og þegar stundarfjórðungur var til leiksloka leiddu þeir með sex marka mun, 22-16.  HK sigldi svo sigrinum þægilega heim, en lokatölur urðu öruggur níu marka sigur heimamanna, 31-22.

Guðni Már Kristinsson var algjörlega frábær hjá gestunum. Guðni spilaði félaga sína vel uppi og skoraði einnig tíu mörk í tíu skotum. Lárus Helgi Ólafsson datt svo í algjöran ham í markinu í síðari hálfleik og endaði með rúmlega 40% markvörslu.

Það var eigilega allt að hjá gestunum. Sóknarleikurinn var slakur, varnarleikurinn ekki mikið skárri og markvarslan nákvæmlega engin.

Með sigrinum nældu heimamenn í sín fyrstu stig í Olís-deildinni þetta árið og eru því jafnir Fram að stigum eftir leikinn í kvöld.

Guðni Már: Verður extra rígur á fimmtudaginn

„Þetta var ekki alveg óaðfinnalegur síðari hálfleikur en það gekk ansi margt upp," sagði Guðni Már Kristinsson, leikstjórnandi HK, í leikslok.

„Það var aðeins meiri barátta í vörninni í síðari hálfleik og spiluðum sóknirnar til enda. Við vorum alltof bráðir á okkur í fyrri hálfleik og vorum að klúðra færum, en opnuðum vörnina þeirra miklu betur í síðari hálfleik."

„Þegar að vörnin smellur þá kemur markvarsla líka og Lalli (Lárus Helgi) stóð eins og klettur þarna fyrir aftan okkur."

„Við erum ennþá að spila okkur saman, enda alveg nýtt lið. Við erum að verða betri og betri, en ég þakka liðinu fyrir hversu vel ég spilaði í dag. Engu öðru."

„Það er alltaf gaman að spila á móti FH og sérstaklega þegar bróður manns er í liðinu. Það verður extra rígur á fimmtudaginn," sagði Guðni í leikslok.

Guðlaugur: Kom mér á óvart hversu lélegir við vorum

„Ég er virkilega svekktur með mína menn," sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, í leikslok.

„Ég er bara svekktur með allt. Holninguna á liðinu, hvernig við mætum til leiks og auðvitað eru eitthver meiðsli og annað hjá okkur, en það breytir því ekki að við þurfum að mæta almennilega til leiks."

„Við vorum að krafla í fyrri hállfeik. Það var meiri töggur í okkur þá en síðari hálfleik, en við erum ekki að spila eins og við ætluðum að spila. HK voru samt að spila vel og unnu okkur sanngjarnt."

„Það kom mér á óvart hversu lélegir við vorum í dag," sagði Guðlaugur og bætti við að hann sæi fátt jákvætt við þennan leik.

„Það er aðallega innkoma Lúðvíks og Arnars Freys síðustu tíu mínúturnar sem glöddu mig, en þeir komu inn með krafti og þor."

„Það er jákvæða við þetta að það er leikur á laugardaginn. Það er leikur á laugardaginn og æfing á morgun og við þurfum bara hreinsa til. Það er hætt við að svona frammistaða komi því við erum með ungt lið, en menn verða að vera tilbúnir að spila eins og þeir eiga að spila og mæta með hausinn í lagi," sagði Guðlaugur í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×