Íslenski boltinn

Jón Ragnar: Kassim kvartar undan veðrinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Bakvörðurinn Jón Ragnar Jónsson segir að það sé alltaf gaman að vera í FH, sérstaklega þegar vel gengur. FH mætir Stjörnunni í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild karla á morgun.

„Það hefur gengið vel. Allir eru í góðum fíling á æfingum. Kassim Doumbia er reyndar að kvarta mikið yfir veðrinu. Hann skilur ekkert í þessu,“ sagði Jón Ragnar og hló.

„Við höfum aðallega verið í reiti og spili en nú byrjum við aðeins að spá í leikinn,“ sagði Jón Ragnar fyrir æfingu FH á Kaplakrikavelli í gær. En telur hann að það sé mögulega ekki of seint að bíða til fimmtudags með að skoða andstæðinginn.

Jón Ragnar með félögum sínum eftir sigurinn í Lengjubikarnum í vor.Vísir/Daníel
„Þetta er það sem við höfum vanalega gert og ég tel að það sé rétt nálgun á þennan leik að breyta ekki út af vananum. Þó það sé ofboðslega mikið undir þá er þetta eins og hver annar leikur í deildinni.“

Þjálfarar FH-inga hafa vitanlega skoðað andstæðinginn mun lengur og Jón Ragnar treystir því að þeir hagi undirbúningnum á réttan hátt.

„Ég treysti þjálfurunum fullkomlega fyrir þessu. Ég veit að þeir munu gefa okkur réttu skilaboðin svo að allir verði með sitt á hreinu þegar flautað verður til leiks.“

Vísir/Arnþór
Hann neitar því þó ekki að vikan hafi verið sérstök og að gríðarleg umfjöllun um leikinn hafi sett sterkan svip á aðdraganda hans.

„Umtalið gæti truflað einbeitinguna en mér sýnist að menn séu með einbeitinguna í lagi. Ég held að þeir séu ekki á refresh-takkanum á fimm mínútna fresti,“ sagði Jón Ragnar.

Það var greinilegt á æfingunni að það er létt yfir leikmönnum FH. Jón Ragnar segir að erlendu leikmennirnir setji skemmtilegan svip á hópinn. „Þessir fuglar sem hafa komið inn eru mjög skemmtilegir. Við erum með mann frá Malí og vitlausa Breta sem vita ekkert hvað þeir eru að gera. Það er í raun engin æfing eins.“


Tengdar fréttir

Lennon ristarbrotinn | tímabilið á enda hjá framherjanum

"Ég verð líklega frá í tvo mánuði,“ sagði Steven Lennon í viðtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu 977 í dag. Framherjinn sterki meiddist illa undir lok leiksins gegn FH í gær þar sem að Jón Ragnar Jónsson varnarmaður FH braut klaufalega á Lennon. "Ég verð í gifsi í fjórar vikur,“ sagði Lennon en hann er ristarbrotinn og fjarvera hans er mikið áfall fyrir Fram sem berst fyrir lífi sínu í Pepsi-deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×