Viðskipti innlent

Segir málatilbúnaðinn byggja á „eftiráspeki“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir / Valli
Munnlegum málflutningi í máli sérstaks saksóknara á hendur fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Sindra Sveinssonar fyrrverandi miðlara í Landsbankanum, tók síðastur til máls.

Reimar lýsti yfir sakleysi skjólstæðings síns og fór fram á að hann yrði sýknaður af öllum kröfum en til vara fór hann fram á lægstu mögulegu refsingu. Hann sagði Sindra hvorki hafa átt frumkvæði að, né tekið sjálfstæðar ákvarðanir í starfi sínu hjá Landsbankanum. Því sé ákæran með öllu óréttlætanleg.

„Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Ekki nóg með það þá er beinlínis erfitt að vera það ekki,“ sagði Reimar og vísaði í sálfræðirannsóknir á „eftiráspeki“. „Hvers vegna skildi það þá nú vera að málatilbúnaðurinn byggi beinlínis á því sem kallast eftiráspeki? [...] Hér er það ákæruvaldið sem er viturt eftir á.“

Áfram hélt hann hugleiðingum sínum um speki og fór því næst í „ef og hefði spekina“, sló svo á létta strengi sem virtist vekja mikla kátínu meðal ákveðinna aðila í réttarsal.  Hann færði sig þó fljótt aftur yfir á alvarlegri nótur:

„Í sakamáli er eftiráspeki óréttlætanleg gagnvart þeim sem eiga frelsi sitt í húfi.“

Hann sagði málatilbúnað ákæruvaldsins ósanngjarnan og vísaði í ræðu sækjanda frá því í gær þar sem sagt var að Sindri hefði haft persónulega hagsmuni af því að verð hlutabréfa í Landsbankanum héldust sem hæst. Sagði hann sækjanda ekki hafa nokkur rök fyrir því og gagnrýndi harðlega skort á sönnunum. 


Tengdar fréttir

Bankastjórinn reiddi sig á eftirlitsaðila

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segist hafa treyst því að Kauphöllin, FME og innra eftirlit bankans myndu láta sig vita ef eitthvað óeðliegt ætti sér stað með viðskipti bankans með eigin bréf.

Björgólfsfeðgar bera vitni

Vitnaleiðslur hefjast í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans.

Ósáttur við að vera kallaður til sem vitni

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, baðst undan því að bera vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í markaðsmisknotkunarmáli bankans.

Þvertók fyrir að hafa haft áhrif á hlutabréfaverð

Björgólfur Thor Björgólfsson, stærsti eigandi Landsbankans fyrir hrun, kvaðst fyrir Héraðsdómi í dag hafa rætt hvernig ætti að bregðast við óveðri en ekki hvernig ætti að hafa áhrif á veðrið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×