Lífið

Brunaði á slysó á milli sýninga

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sigurður í hlutverki Tomma ásamt öðrum leikurum í Línu (til vinstri) og Sigurður uppi á slysó (til hægri).
Sigurður í hlutverki Tomma ásamt öðrum leikurum í Línu (til vinstri) og Sigurður uppi á slysó (til hægri). myndir/borgarleikhúsið & úr einkasafni
„Ég átti frekar klaufalegt móment í byrjun sýningarinnar í gær. Ég skall með hökuna í járnkant á tunnu sem var á sviðinu og opnaði alveg upp á mér hökuna,“ segir leikarinn Sigurður Þór Óskarsson. Hann fer með hlutverk Tomma í leikritinu Línu langsokk í Borgarleikhúsinu og slasaðist á höku á fyrri sýningunni í gær.

„Þetta var ógeðslega vont. Það eina sem ég hugsaði var: Ég vona að það leki ekki blóð úr mér svo börnin haldi ekki að Tommi sé að deyja. Ég var hræddastur um það. Ég tók um hökuna og fann að það blæddi ekki mikið þannig að ég þraukaði í gegnum senuna, sem er sem betur fer frekar stutt,“ bætir Sigurður við.

Sigurður Þór Óskarsson.vísir/stefán
Þegar baksviðs var komið eftir senuna tók sýningarstjórinn Ingibjörg Elfa Bjarnadóttir málin í sínar hendur og náði að tjasla hökunni á Sigurði saman.

„Það var eins og hún hefði verið skurðlæknir í mörg. Hún var þvílíkt fær,“ segir Sigurður léttur í lundu. „Svo brunuðum við uppá slysó á milli sýninga og fjögur spor voru saumuð í hökuna.“

Það hefur gengið á ýmsu í Línu en þarsíðustu helgi þurfti að aflýsa sýningum þar sem Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem leikur Línu, fékk sýkingu í raddböndin og missti röddina. Hún er hins vegar öll að koma til og lék allar fjórar sýningarnar af Línu síðustu helgi. Hvað varðar Sigurð er hann einnig allur að skána.

„Ég er aumur í þessu en finn ekki til. Þetta er bara kúl. Ég vona bara að ég fái ör eins og Harrison Ford,“ segir Sigurður og hlær.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×