Lífið

Ráðist á mennsku Barbie

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ráðist var á Valeria Lukyanova, sem oftast er kölluð mennska Barbie sökum útlits síns, á hrekkjavökunni um síðustu helgi. Árásin átti sér stað fyrir utan heimili Valeria í borginni Odessa í Úkraínu.

Valeria heldur því fram að árásin komi í kjölfar hatursáróðurs í hennar garð sem ókunnugir hafa haldið á lofti síðustu tvö árin.

Þessi 28 ára fyrirsæta náði heimsathygli vegna útlits síns en hún lítur út eins og Barbie-dúkka. Valeria segir að útlit sitt sé náttúrulegt fyrir utan eina brjóstastækkunaraðgerð. Margir á internetinu halda því fram að hún sé að búa til söguna um árásina til að hylma yfir lýtaaðgerðir sem hún fór í nýverið og því sé hún öll lemstruð.

„Ég kom heim úr búðinni með poka og sló inn dyrakóðann þegar tveir menn stukku á mig úr myrkrinu og réðust á mig. Þeir sögðu ekkert og reyndu ekki að ræna mig,“ segir Valeria í samtali við Daily Mail.

„Þetta gerðist á svipstundu. Þeir slógu mig í höfuðið, margoft í kjálkann og einn tók mig hálstaki. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef nágranni minn hefði ekki birst skyndilega. Þeir sáu hann og hlupu í burtu,“ bætir hún við.

Valeria var lögð inná spítala og fékk að fara heim á þriðjudaginn. 

„Mér líður aðeins betur en mér er enn mjög illt í kjálkanum. Ég er búin að vera á sterkum verkjalyfjum í fjóra daga en vakna samt á nóttunni með hrikalega verki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×