Lífið

Dómari hótar því að gefa út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Bieber

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ljósmyndari hefur kært Bieber fyrir árás sem hann segir söngvarann hafa fyrirskipað.
Ljósmyndari hefur kært Bieber fyrir árás sem hann segir söngvarann hafa fyrirskipað. Vísir / AFP
Argentínskur dómari hefur hótað því að láta Interpol gefa út handtökuskipan á hendur söngvaranum Justin Bieber til að tryggja að hann mæti í skýrslutöku í Buenos Aires. Söngvarinn er sakaður um að hafa ráðist á ljósmyndara. Dómarinn hefur gefið Bieber 60 daga frest til að gefa skýrslu í málinu.



Ríkisútvarp Argentínu hefur eftir dómaranum að hann hafi óskað eftir aðstoð Interpol við að hafa uppi á Bieber og tilkynna honum að mál hafi verið höfðað gegn honum. Ef að söngvarinn snýr ekki til Argentínu til að svara fyrir ásakanirnar mun hann láta gefa út áðurnefnda handtökuskipun.



Verði Bieber fundinn sekur um árásina á hann yfir höfði sér árs fangelsi.



Atvikið átti sér stað 9. nóvember á síðasta ári þegar Bieber og fylgismenn hans voru í samkvæmi á næturklúbbi í Buenos Aires. Ljósmyndarinn sem lagt hefur fram kæru á hendur Bieber segist hafa verið eltur og barinn eftir að hafa reynt að taka myndir af söngvaranum.



Yfirvöld hafa ekki gefið út ákæru á hendur Bieber en vilja taka skýrslu af honum. „Beiber verður að koma til Argentínu, og það verður ekki til að syngja,“ sagði lögmaður ljósmyndarans í samtali við sjónvarpsstöðina C5N TV. Hann segir að Bieber hafi skipað lífvörðum sínum að ráðast á Pesoa með þeim afleyðingum að hann þurfti að leita sér hjálpar á spítala.



Bieber hefur ekki tjáð sig um ásakanir Pesoa.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×