Lífið

Big Bang Theory-stjarna látin

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Leikkonan Carol Anna Susi er látin úr krabbameini, 62ja ára að aldri. Carol er hvað þekktust fyrir að ljá Mrs. Wolowitz rödd sína í þáttunum Big Bang Theory.

„Big Bang Theory-fjölskyldan missti ástkæran meðlim í dag þegar að Carol Ann Susi lést en hún léði Mrs. Wolowitz rödd sína á ógleymanlegan og sprenghlægilegan hátt,“ stendur í yfirlýsingu frá Warner Bros. Television, CBS og framleiðendum Big Bang Theory; Chuck Lorre, Steven Molaro og Bill Prady.

„Karakterinn Mrs. Wolowitz var ráðgáta þar sem áhorfendur sáu hana aldrei í átta seríum af þáttunum. Það sem er hins vegar ekki ráðgáta var einstakur hæfileiki Carol Ann og tímasetning í gríni sem sást í hvert sinn sem hún kom fram. Carol Ann var endalaus uppspretta gleði og góðmennsku auk þess sem hún var afar hæfileikarík. Hugsanir okkar eru hjá fjölskyldu hennar á þessum tíma og við sendum henni samúðarkveðjur. Við munum sakna Carol Ann mikið,“ stendur jafnframt í yfirlýsingunni.

Carol Ann kom fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum á ferlinum, þar á meðal Grey's Anatomy, Ugly Betty, That '70s Show, Just Shoot Me og Seinfeld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×