Lífið

Leonardo DiCaprio fertugur: Hans eftirminnilegustu hlutverk

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Stórleikarinn Leonardo DiCaprio fagnar fertugsafmæli sínu í dag en hann er fyrir löngu búinn að sigra hjörtu margra meyja um heim allan.

Leonardo byrjaði ungur í leiklistarbransanum en sló fyrst í gegn árið 1992 þegar hann lék á móti Robert De Niro í kvikmyndinni This Boy's Life. Síðan þá hefur hann átt stjörnuleik í hverri stórmyndinni á fætur annarri en aldrei hlotið Óskarsstyttuna eftirsóknarverðu, þó hann hafi verið tilnefndur fjórum sinnum.

Þá hefur Leonardo líka verið þekktur fyrir að deita súpermódel, meðal annars Gisele Bundchen og Erin Heatherton en hann og fyrirsætan Toni Garrn hafa verið saman síðan í maí á síðasta ári.

Lífið leit yfir nokkur af eftirminnilegustu hlutverkum leikarans. 

Leonardo bræddi hjörtu stúlkna vestan hafs þegar hann lék heimilislausa drenginn Luke í sjónvarpsþáttunum Growing Pains á árunum 1991 til 1992.



Leo vakti heimsathygli árið 1992 þegar að Robert De Niro valdi hann úr hópi fjögur hundruð stráka til að leika aðalhlutverkið í This Boy's Life.



Gagnrýnendur lofuðu Leonardo fyrir frammistöðu hans í kvikmyndinni What's Eating Gilbert Grape árið 1993. Í myndinni lék hann fatlaða drenginn Arnie og krækti hann sér í tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikari í aukahlutverki.



Flestar unglingsstúlkur urðu bálskotnar í Leonardo þegar hann lék sjálfan Rómeó í nútímavæðingu Shakespeare-leikritsins Rómeó og Júlía á móti Claire Danes árið 1996. Eftir velgengni myndarinnar valdi tímaritið People hann eina af fimmtíu fallegustu manneskjum í heiminum.



Kvikmyndin Titanic frá árinu 1997 sló öll met og allt í einu varð Leonardo einn eftirsóttasti leikarinn í Hollywood. Svokallað „Leo-mania“ greip um sig um heim allan enda skilaði Titanic milljörðum í kassann.



Leonardo lék í fimm stórum kvikmyndum á árunum 2000 til 2006, þar á meðal þremur með leikstjóranum Martin Scorsese - Gangs of New York, The Aviator og The Departed. Hann var tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Howard Hughes í The Aviator.



Aðra tilnefningu til Óskarsins hlaut hann fyrir hlutverk sitt í Blood Diamond frá árinu 2006.



Leonardo og Martin Scorsese leiddu aftur saman hesta sína í fyrra í kvikmyndinni The Wolf of Wall Street. Í henni túlkar Leo verðbréfabraskarann Jordan Belfort og þótti honum takast vel upp. Svo vel að hann fékk tilnefningu til Óskarsverðlaunanna en tapaði fyrir Matthew McConaughey.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×