Leikjavísir

EVE myndband fer eins og eldur í sinu um internetið

Samúel Karl Ólason skrifar
EVE heimurinn er gríðarlega stór.
EVE heimurinn er gríðarlega stór. Mynd/CCP
Tölvuleikjafyrirtækið CCP birti nýverið heimasíðuna eve101.com, þar sem nýjum leikmönnum er gert auðveldara að læra á innviði EVE Online leiksins. Þar eru birt kennslumyndbönd og leiðbeiningar frá því hvernig stýra á skipum í leiknum og hvernig skipin sjálf virka.

Þar að auki birti fyrirtækið myndbandið: This is EVE. sem hefur farið eins og eldur í sinu um internetið. Þar eru raunverulega samtöl leikmanna sett saman við myndbönd úr leiknum.

„Við höfum gefið út myndbönd úr og tengd EVE Online í um áratug, en aldrei séð viðbrögð sem þessi,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP.

Meðal þeirra sem hafa vakið athygli á myndbandinu er Gary Whitta, en sá er að skrifa nýjustu mynd Star Wars seríunnar. Hann segir þetta vera bestu auglýsingu sem hann hefur séð.

Á um 24 tímum hafa rúmlega milljón manns séð myndbandið og jákvæðar umfjallanir fjölmiðla og áhrifamanna í þessum geira hrúgast inn. Þegar hafa miðlar eins PC Gamer, RPS og Gameinformer fjallað um myndbandið.

„Í kjölfar þeirra fyrirspurna sem við höfum fengið í morgun er ljóst að við eigum eftir að sjá frekari umfjallanir eftir því sem líður á vikuna, og að útbreyðsla þess á netinu er rétt að byrja,“ segir Eldar.

„Það er jákvætt að sjá góð viðbrögð spilara leiksins við myndbandinu haldast í hendur við þær breytingar sem við höfum verið að gera á þróun leiksins undanfarna mánuði.”

Myndbandið var frumsýnt á EVE Down under ráðstefnu EVE Online spilara í Ástralíu um helgina.

Töluverðar breytingar hafa átt sér í þróun EVE Online undanfarna mánuði. Í takt við það sem CCP boðaði á EVE Fanfest ráðstefnunni í Reykjavík fyrr í ár gefur fyrirtækið nú út viðbætur við leikinn á 6 vikna fresti, í stað um 6 mánaða áður. Þetta gefur fyrirtækinu kost á að gera örari breytingar á leiknum, í takt við framvindu hans og í kjölfar viðbragða spilara leiksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×