Handbolti

Það er allt kolgeggjað í Eyjum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar og lærisveinar hans tóku Herjólf fyrir hádegi og eru ná leið í bæinn.
Gunnar og lærisveinar hans tóku Herjólf fyrir hádegi og eru ná leið í bæinn. samsett mynd/tryggvi
"Þetta eru stærstu fólksflutningar frá Eyjum síðan 1973," segir Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, en gríðarlegur fjöldi Eyjamanna mun fylgja handboltaliði félagsins upp á land í dag.

Í kvöld fer fram úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á milli ÍBV og Hauka. Stærsti leikur í sögu karlaliðs félagsins sem hefur aldrei náð að hampa þeim stóra.

"Það er allt kolgeggjað hérna. Maður kemst varla út með ruslið án þess að hitta einhvern sem vill tala um leikinn. Það er erfitt að lýsa stemningunni öðruvísi en að það sé allt kolgeggjað."

Það er frítt með Herjólfi í dag og var röð út alla bryggjuna í morgun þegar hægt var að ná sér í miða í bátinn.

"Við lögðum í hann fyrir hádegi og það var magnað að sjá alla þessa röð. Ég held það fari þrjár ferðir í dag en ein ferð er tíu prósent íbúa bæjarins. Ég held það verði eitthvað fáir eftir í bænum. Það er náttúrulega stórskotlegt að fá áfram þennan magnaða stuðning sem við höfum verið að fá."

Leikmenn ÍBV munu fara upp á Cabin-hótel við komuna í bæinn og svo slaka á fyrir stóru stundina.

"Það er bara tilhlökkun hjá okkur fyrir leikinn. Það er mikið sjálfstraust í liðinu og leikmenn hafa fulla trú á því að þeir geti klárað þetta verkefni í kvöld."

Leikurinn hefst klukkan 19.45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Sigurbergur með flest mörk í fyrstu fjórum leikjunum

Haukamaðurinn Sigurbergur Sveinsson er sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk í fyrstu fjórum leikjunum í úrslitaeinvígi Hauka og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deildar karla í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×