Sport

Neuer og Williams besta íþróttafólk heims í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maunel Neuer og Serena Williams.
Maunel Neuer og Serena Williams. Vísir/Getty
Alþjóðlegu Samtök íþróttafréttamanna, AIPS, hafa valið þýska knattspyrnumanninn Manuel Neuer og bandarísku tenniskonuna Serena Williams besta íþróttafólk ársins 2014.

Valnefndin var skipuð 91 íþróttafréttamanni allstaðar af úr heiminum og kusu þeir á milli þess íþróttafólks sem var tilnefnt að þessu sinni. Fulltrúi Íslands fékk að sjálfsögðu atkvæðarétt í kosningunni í ár.

Manuel Neuer, markvörður Bayern München og heimsmeistara Þjóðverja, átti frábært ár og hann hafði betur gegn tennisleikaranum Roger Federer og knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo.  Neuer og Ronaldo koma báðir til greina sem besti knattspyrnumaður heims hjá FIFA.

Neuer fékk 14,84 prósent atkvæða, Federer fékk 13,26 prósent og Ronaldo 12,79 prósent.

Serena Williams vann sjö titla á árinu og þar á meðal var opna bandaríska meistaramótið. Hún vann yfirburðarsigur í kjörinu en í næstu sætum komu skíðaskotfimikonan Darya Domarcheva frá Hvíta-Rússlandi og norska skíðagöngukonan Marit Björgen sem unnu báðar gull á Vetrarólympíuleikunum í Sotjsí.

Williams fékk 21,43 prósent atkvæða, Domarcheva fékk 12,28 prósent og Björgen 12,03 prósent.

Þýsku heimsmeistararnir í fótbolta fengu yfirburðarkosningu sem lið ársins (39,36 prósent), Evrópumeistarar Real Madrid urðu í 2. sæti (12,55 prósent) og í þriðja sæti lenti síðan tennislandslið Svisslendinga sem vann Davis-bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×