Leikmenn Hauka og ÍBV fá ekki langan tíma til að jafna sig eftir leik fjögur í Vestmannaeyjum á þriðjudagskvöldið því í kvöld spila þessi tvö bestu handboltalið landsins nefnilega hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Þetta er fyrsti oddaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn í fjögur ár og aðeins sá annar á síðustu ellefu árum. Í nítján úrslitakeppnum karlahandboltans frá upphafi hafa úrslitin aðeins fjórum sinnum áður ráðist í hreinum úrslitaleik.
Leikurinn í kvöld er því sjaldgæf veisla fyrir íslenska handboltaáhugamenn sem láta sig örugglega ekki vanta á pallana á Ásvöllum klukkan 19.45 í kvöld.
Heimavöllurinn hefur verið ósigrandi vígi í oddaleikjum síðustu tólf ár sem gerir verkefnið enn vandasamara fyrir Eyjamenn.
Frá sögulegum sigri KA-manna í oddaleik um titilinn 10. maí 2002 hafa farið fram sextán oddaleikir í úrslitakeppni karla og þeir hafa allir unnist á heimavelli. Haukarnir sjálfir hafa unnið fimm þeirra á Ásvöllum, þar á meðal spennuleik við nágrannana í FH í undanúrslitaeinvígi liðanna í ár.
Reynslan úr oddaleikjum er öll Haukamegin því enginn í liði ÍBV hefur tekið þátt í svona leik áður. Haukarnir tryggðu sér níunda Íslandsmeistaratitilinn sinn í oddaleik og geta nú endurtekið leikinn fjórum árum síðar.
Oddaleikirnir í lokaúrslitum karla:
1995
28. mars 1995 Valur – KA 30-27
Fyrri hálfleikur: Jafnt (12-12) Seinni: Jafnt (11-11)
Framlenging: Valur +3 (7-4).
Ólafur Stefánsson, Val 8
Partrekur Jóhannesson, KA 7
Valdimar Grímsson, KA 7
Dagur Sigurðsson, Val 6
Jón Kristjánsson, Val 6
Alfreð Gíslason, KA 6
2001
5. maí 2001 KA – Haukar 27-30
Fyrri: Haukar +4 (14-10) Seinni: KA +1 (17-16)
Rúnar Sigtryggsson, Haukum 10
Halldór Jóhann Sigfússon, KA 10
Óskar Ármannsson, Haukum 7
Guðjón Valur Sigurðsson, KA 5
2002
10. maí 2002 Valur – KA 21-24
Fyrri: Valur +1 (10-9) Seinni: KA +4 (15-11)
Halldór Jóhann Sigfússon, KA 8
Sigfús Sigurðsson, Val 6
Snorri Steinn Guðjónsson, Val 5
Sævar Árnason, KA 4
Jóhann G. Jóhannsson, KA 4
2009
8. maí 2010 Haukar – Valur 25-20
Fyrri: Haukar +1 (10-9) Seinni: Haukar +4 (15-11)
Arnór Þór Gunnarsson, Val 7
Sigurbergur Sveinsson, Haukum 6
Pétur Pálsson, Haukum 4
Björgvin Þór Hólmgeirsson, Haukum 4
Guðmundur Árni Ólafsson, Haukum 4
Sigurður Eggertsson, Val 4
Ræður heimavöllurinn úrslitum enn og aftur?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
