Veiði

"Pabbi er minn uppáhalds veiðifélagi"

Karl Lúðvíksson skrifar
Það hefur lengi verið rætt um að auka hlut kvenna í veiðinni og síðustu ár hefur loksins borið meira á konum við vötn og ár landsins.

Inn á milli þeirra sem eru að taka sín fyrstu spor eru margar veiðikonur sem hafa meira og minna verið við bakkann frá blautu barnsbeini og eru komnar í hóp reyndari veiðimanna landsins.  Ein af þeim veiðivalkyrjum sem hefur veitt frá því hún var lítil stelpa er Valgerður Árnadóttir hjá Lax-Á en hún hefur veiðibakteríuna í blóðinu frá föður sínum, Árna Baldurssyni, sem er einn þekktasti veiðimaður landsins.  Valgerður var nýlega tekin í hóp Loop Girls sem er átak framleiðandans til að fá fleiri konur til að stunda stangveiði.  Þetta er mikill heiður svo ekki sé talað um fyrir jafn unga konu og Valgerði og er hún þegar farin að hafa þau áhrif að ungar veiðikonur líta til hennar sem fyrirmynd og þeim fjölgar stöðugt stelpunum á bakkanum.  Við slógust í för með Valgerði í einum veiðitúr þar sem skroppið var í Eystri Rangá á fallegum degi til að kasta fyrir lax og ti að kynnast þessari veiðikonu aðeins betur.

Mannstu eftir fyrsta laxinum sem þú veiddir?



Ég man ekki neitt eftir fyrsta laxinum mínum en ég fékk móður mína til að segja mér frá honum. Ég var með mömmu og pabba í Vatnsá þegar ég var um 2-3 ára, pabbi fór efst í ánna en við mamma vorum aðeins neðar. Mamma leyfði mér að leika mér aðeins með litla kaststöng en mér tókst að koma agninu út í á en allt í einu krossbrá mömmu þar sem það tók hjá mér lax. Mamma átti auðvitað ekki von á neinu. Hún var rosalega hissa á þessu öllu saman og upphófst þá fljótt panikk ástand. Þetta var stór og flottur fiskur sem sleit svo á endanum hjá okkur mæðgum enda vorum við ekki með græju sem var ætluð alvöru laxa viðureign heldur bara gamla góða bensínstöðvarprikið og við stóðum eftir bara harmi slegnar. Pabbi kom fljótlega við öll görgin og gólin og við mæðgurnar óðamála yfir því sem hafði gerst. Það er nú oft sagt að maður muni best eftir þeim sem maður missti, ég get þó fullyrt að ég muni ekkert eftir þessum stórlaxi.

En hver er þá fyrsta minningin af því að setja í lax og landa honum?



Ég man ekkert sérstaklega eftir fyrstu minningunni af því, ég man kannski frekar hvað ég gat verið klaufsk til að byrja með en gafst aldrei upp. Það var í eitt skiptið í Ytri Rangá sem ég var að veiða ein og setti í fínan lax. Ég var að þreyta hann og á einhvern ótrúlegan hátt var ég komið með hálft slíið úr allri ánni á línuna hjá mér sem var orðin ansi þung. Lengi getur vont þó versnað því svo kom líklegast eini litli trjádrumburinn í ánni fljótandi og festist með öllu gúmmelaðinu líka á línuna hjá mér sem gerði það að verkum að ég gat ekki notað hjólið til þess að hala inn. Ég var ekki tilbúin að gefa mig þarna og byrjaði að draga línuna inn með höndunum og vefja henni jafn óðum utan um aðra hendina á mér. Eftir skrautlega baráttu náði ég þessum fína laxi inn. Ég eyddi svo næsta hálftíma eða svo í að leysa flækjuna úr línunni þakklát fyrir að vera ein að veiða í það skiptið því þetta ævintýri var alveg efni í "how not to do it" heimildarmynd um laxveiði.

Varðandi það sem á EKKI að gera í veiði, hverju myndir þú miðla áfram til þeirra sem eru að byrja í veiðinni varðandi það sem einmitt á að varast að gera?

Ég myndi segja aðallega að ekki láta einsog einhver “bessevisser”.  Að vera bara tilbúin að hlusta og gera eins og manni er sagt og með tímanum lærir maður svo meira og meira. Það er líka það sem er svo skemmtilegt við þetta sport, maður hættir aldrei að læra, það eru nýjar ár  til að prófa á hverju leyti þó svo að ég geti ekki sagt að ég fái einhver tíma nóg af því að veiða sömu ánna. Ég myndi svo aðallega kannski ekkert vera að vesenast með háf út um allt heldur bara gera þetta ein/nn frá upphafi, það er meiri áskorun og bara gott að venja sig á það frá byrjun. Fyrir 10 árum sagði pabbi við mig þegar ég bað um að fá háf lánaðan á leið í Blöndu að við notuðum ekki háf. Ég var það ung að ég spáði ekki meira í það, yppti bara öxlum og fór af stað og hef aldrei notað háf síðan.

Það var svo fyrir einhverjum 2 árum að ég er að veiða með vini mínum í fyrsta skipti í Ytri Rangá, hann nær laxi og biður mig að sækja háfinn upp í bíl til sín, ég svaraði honum: “nei, við notum ekki háf” og hélt svo bara áfram að veiða. Hann beið í dágóðan tíma eftir að ég segði grín og kæmi með háfinn en áttaði sig svo á því að það væri ekki að fara að gerast. Það var ekki fyrr en að hann var að gera grín að mér í ár að ég áttaði mig á því að þetta væri ekki kannski heilagt að nota ekki háf því ég hafði auðvitað svarað honum einsog mér þætti ekkert sjálfsagðara. Annars bara hafa gaman að því sem maður er að gera og muna að þó það komi ekki lax á í hverju einasta kasti þá skiptir bara mestu að njóta sín og félagsskaparins og náttúrunnar.

Hver er besti veiðifélaginn þinn og hefur þú einhvern tímann veitt með einhverjum sem hefur verið erfitt að veiða með?



Ég myndi klárlega segja að pabbi minn væri uppáhaldsveiðifélagi minn. Samveran er svo skemmtileg, það er alltaf gaman, skemmtilegar sögur ræddar og mikið hlegið. Ég læri líka svo afskaplega mikið af honum og hann heldur mér alveg á tánnum í veiðinni. Í sumar vorum við fjölskyldan saman að veiða í Ásgarði og eftir gott kvöld bauð pabbi mér góða nótt og sagði við mig að það okkar sem vaknaði á undan ætti Frúarsteininn (besta staðinn). Mitt plan var að vakna kl 7 og fara út og veiða svæðið í klukkkustund og fara svo aftur upp í rúm að sofa og horfa svo á hann veiða það um 9 án þess að vita að ég hefði verið nýbúin að kemba það. Við getum svo sannarlega sagt að planið mitt hafi klikkað því ég vakna kl 9, hleyp út á pall og sé þar pabba standa á Frúarsteininum og kastar einsog hann fái borgað fyrir það. Hann gekk meira að segja svo langt að til þess að vekja mig ekki fór hann labbandi niður eftir í staðinn fyrir að fara á bílnum og ég hefði heyrt hann spóla í burtu.

Ég hef virkilega gaman að þessu og þetta heldur manni alveg á tánnum. Mamma hefur ekki veitt eins mikið uppá síðkastið en hún kemur þó með okkur og ég elska að hafa hana með, hún getur alveg hlegið að mér og hrisst hausinn þegar ég bið hana t.d. að skríða yfir brú til þess að fæla ekki laxinn og finnst stundum of langt gengið en hún er nú einn besti félagsskapurinn sem er hægt að hafa í kringum sig hvort sem það er veiði eða annað. Annars á ég fáa en góða vini sem ég veiði oftast með sem eru hvor öðrum óborganlegri félagsskapur.

Ég man ekki sérstaklega eftir að hafa veitt með einhverjum sem mér fannst erfitt að veiða með. Ég hef lent einu sinni í því að vera að veiða með einum sem vildi alltaf veiða á akkúrat sama stað og ég eða eiginlega svona 2 metrum fyrir framan mig, það var orðið þreytt eftir smá tíma skiljanlega þar sem maður veiðir kannski ekki mikið í þeim aðstæðum. Ég sá mér nú þá leik á borði í það skiptið og þóttist vera farin heim og keyrði svo lengst upp ánna og kláraði veiðitímann í friði og meiri fiski. Annars hef ég bara verið heppin með veiðifélaga, þeir eru hvor öðrum skemmtilegri.

Nú ert þú komin í hóp Loop kvenna, til hamingju með þann frábæra árangur.  Hvernig kom það til?



Takk kærlega fyrir það, ég er mjög stolt og ánægð með það. Pabbi (Árni Baldursson)hefur lengi verið hjá LOOP og ég hef því fylgst mikið með vörunum í gegnum hann og notaðist í rauninni oftast við Loop vörur áður. Ég var í sambandi við forstjóra Loop og hann bauð mér að koma í kvennahópinn hjá þeim og taka þátt í því að hvetja fleiri stelpur til þess að prófa að veiða. Mér fannst það mjög spennandi verkefni og finnst ótrúlega flott hjá þeim að vilja stuðla að því að fá fleiri konur í sportið, Loop er t.a.m. með stærsta stelpu-team af öllum veiðivöruframleiðendunum.  Mér finnst Loop líka henta stelpum alveg rosalega vel líka því að þeir eru með svo fallegan fatnað sem er litríkur og aðsniðinn og skemmtilegur í veiðinni.

Það hefur verið mikið rætt um að draga fleiri konur í veiðina, hvað telur þú að væri hægt að gera til að fá konur á öllum aldri til að veiða?



Ég held að það sé aðallega að bjóða þeim með, þá kemur þetta fljótt. Ég bauð vinkonu minni með að veiða sem hafði aldrei farið áður í Ásgarð í sumar í smá dagsferð og það var alveg ótrúlega skemmtilegt. Hún hafði aldrei kastað en náði því alveg furðulega fljótt og eftir að hún missti einn varð hún alveg hooked og ég varla fékk að koma nálægt stönginni eftir það. Það var reyndar svolítið fyndið því hún var að kasta á alveg mjög ólíklegan stað og þar tók þessi fína bleikja en henni brá svo rosalega mikið þegar hún tók að hún kastaði stönginni í mig þar sem ég stóð svona 2 metrum frá henni. Það var ansi hressandi að fá fljúgandi stöng í andlitið með fiskinum á. Ég held þess vegna aðallega að það skipti máli að bjóða að koma með sér og prófa, það eru fáir sem finnst þetta ekki skemmtilegt eftir að hafa prófað. Mér finnst líka vera mikil breyting í fatnaði að koma á markað sem hentar konum frekar, aðsniðnari föt og fleira sem gerir þetta bara svo miklu skemmtilegra.

Ertu farin að hugsa um næsta veiðisumar?  

Ég veit það allavega að ég mun fara í Stóru Laxá um leið og færi gefst á því, ég get bara ekki beðið eftir að koma þangað aftur. Ég hef eytt miklum tíma á svæði 1og2 og 4 en ekki eins miklu á svæði 3 svo ég hugsa að ég muni leggja það aðeins fyrir næsta sumar. Ég held að það sé engin á sem hefur heillað mig gjörsamlega jafn mikið upp úr skónum og Stóra Laxá. Ég er líka viss um að ég eyði meiri tíma í Ásgarði með fjölskyldunni, við eigum alveg dásamlegar minningar þaðan. Svo langar mig að ferðast meira norður næsta sumar og þá helst í Svartá og kanna hana betur. Svo verð ég að komast líka í Rangárnar, það er ekki hægt að sleppa því. Þar er svo skemmtilegt að hitta allt fólkið og alltaf mikið að gerast og skemmtilegar nýjar sögur að heyra, svo ég tali nú ekki um matinn sem er eflaust ástæða þess að ég æfi einsog ég fái borgað fyrir það eftir sumarið.

Ég hef svo hugsað mér að færa mig meira út fyrir landsteinana en vanalega en við fjölskyldan förum alltaf til Skotlands að veiða saman í maí en annars er Argentína, Rússland og Grænland á stefnuskránni. Ég hef vanalega engar ferðir ákveðnar fyrirfram með ákveðnu fólki en ég veit að manneskjan sem ég hlakka mest til að veiða með næsta sumar er hann pabbi minn.










×