Árni Vilhjálmsson skoraði þrennu þegar Blikar skelltu vængbrotnum Víkingum í rigningu og roki á Kópavogsvelli í 20. umferð Pepsi-deildar karla. Blikar voru mun sterkari aðilinn frá upphafi til enda og verðskulduðu sigurinn.
Strax í upphafi leiks var ljóst í hvað stefndi. Blikar sóttu af krafti undan vindi og eftir tuttugu mínútur hafði Árni Vilhjálmsson komið heimamönnum í 2-0. Fyrra markið var af glæsilegri gerðinni, negla upp í þaknetið einn gegn Ingvari Kale, en hið síðara af stuttu færi eftir góðan undirbúning Ellerts Hreinssonar.
Blikar réðu gangi leiksins fullkomlega og Víkingar, sem léku án þriggja lykilmanna, áttu engin svör. Skotinn Henry Monaghan fékk að líta rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks fyrir háskalega tæklingu og þar með var leiknum svo gott sem lokið. Blikar hefðu getað leitt með fimm mörkum í hálfleik en forystan aðeins tvö mörk er gengið var til búningsherbergja.
Síðari hálfleikurinn var jafnari þótt Víkingar væru manni færri. Ekkert benti þó til annars en öruggs sigurs Blika þegar brotið var á Viktori Erni Jónssyni innan teigs. Ívar Örn Jónsson skoraði af öryggi úr spyrnunni og gaf gestunum von. Glæsimark Árna slökkti þær vonir á 82. mínútu með frábæru vinstri fótarskoti áður en Ellert Hreinsson innsiglaði sigurinn.
Blikar léku mögulega sinn besta leik í sumar og hljóta að svekkja sig á því hvar þessi spilamennska hefur verið til þessa. Jafntefliskóngarnir voru í frábærum gír og hefðu getað skorað mun fleiri mörk. Víkingar eru áfram í bílstjórasætinu hvað Evrópusæti varðar. Nú er hins vegar forystan á Valsmenn í 5. sæti aðeins tvö stig eftir sigur Hlíðarendapilta á Þór.
Blikar eru úr fallhættu eftir sigurinn í dag. Framarar gætu náð þeim að stigum en 17 markamunur gerir það að verkum að Blikar verða í efstu deild að ári svo framarlega sem svín taki ekki upp á því að fljúga.
Gummi Ben: Skrautlegar tæklingar fylgja haustinu„Við byrjuðum af gríðarlegum krafti og gerðum út um leikinn í fyrri hálfleik með frábærri spilamennsku á köflum. Við erum hæstánægðir,“ sagði Guðmundur Benediktsson, kampakátur þjálfari Blika, í leikslok.
Hann vildi ekki viðurkenna að farið hefði um sig þegar Víkingar minnkuðu muninn í eitt mark stundarfjórðungi fyrir leikslok. Blikar hafa sett Íslandsmet í jafnteflum í sumar og örugglega einhverjir sem áttu von á að hið sama yrði uppi á teningnum.
„Nei, ég hafði gríðarlega góða tilfinningu. Fannst við reyndar á tímabili í síðari hálfleik flækja hlutina. Einfaldleikinn er bestur og við gerðum hið einfalda mjög vel í fyrri hálfleik. Það er mannlegt eðli að reyna að gera erfiðari hluti og flækja hlutina tveimur mörkum yfir og manni fleiri.“
Hans menn hefði vaknað við að fá á sig markið og var Guðmundur ánægður hvernig hans menn „stigu á bensíngjöfina“ og kláruðu leikinn.
Aðspurður um rauða spjaldið sem Henry Monaghan, leikmaður Víkings, fékk undir lok fyrri hálfleiks sagði Guðmundur:
„Hann fór í tæklingu á mínum manni og dómarinn virðist hafa metið það þannig að hann hafi farið með takkana á undan. Þetta gerist nokkrum sinnum þegar fer að hausta. Ekkert auðvelt að dæma í þeim aðstæðum.“
Óli Þórðar: Blikar voru miklu betri„Það er lítið að segja um frammistöðu okkar. Það er meira að segja um frammistöðu Blika. Þeir voru miklu betri en við og við mættum ekki klárir,“ sagði Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga.
Gestirnir söknuðu Arons Elís Þrándarsonar, Pape Faye og Alan Lowing í dag og var það greinilegt. Þjálfarinn var aðeins með sex varamenn og einn þeirra var Milos Milojevic, aðstoðarþjálfari Víkinga.
„Við vissum að við værum með þunnan hóp en engu að síður vill maður sjá þá sem maður stillir upp í byrjunarliðinu leggja meira á sig en þeir gerðu í dag.“
Aðspurður hvort hans menn hefðu ekki verið með hausinn kláran í baráttuna í rigningunni og rokinu sagði Ólafur:
„Nei, mér sýndist ekki.“
Henry Monaghan, miðjumaður Víkinga, var rekinn af velli fyrir grófa tæklingu undir lok fyrri hálfleiks. Ólafur var ósáttur við dóminn og taldi Skotann aðeins hafa farið með annan fótinn í tæklinguna. Sá dómur hefði þó litlu skipt í heildarmyndinni.
Víkingar hafa tveggja stiga forskot á Val í baráttunni um Evrópusæti þegar tvær umferðir eru eftir. Ólafur viðurkenndi að hann hefði áhyggjur fyrir leikina sem framundan væru. Hann hefði alltaf áhyggjur.
Árni Vill: Ég á einn gulllitaðan skó fyrir„Ég er sáttur með liðið og sigurinn. Mörkin eru fín líka þar sem maður er framherji,“ sagði Árni Vilhjálmsson, maður leiksins.
Árni skoraði þrjú mörk og þakkaði hann meðal annars skónum sem hann klæddist.
„Ég verð að gefa Viktori Unnari (Illugasyni) vini mínum það að hann lánaði mér þessa skó. Fyrst með U19 landsliðinu þegar ég setti átta mörk í tíu leikjum og svo dró ég þá fram í sumar fyrir þennan leik og setti þrjú. Þeir gefa mörk þessir skór,“ sagði Árni léttur.
Árni er kominn með tíu mörk í sumar og í kapphlaupi við Jonathan Glenn og Gary Martin um markakóngstitilinn. Hann segir það ekki markmið að verða markakóngur og næla sér í gulllitaðan skó.
„Alls ekki. Ég var að spila í gulllituðum skóm í dag svo ég á einn svoleiðis. Ég get ekki farið að hugsa út í það. Að vinna leikina er mjög gott. Að skora eitt eða tvö er gaman líka. Ég er sáttur ef ég næ að gera eitthvað fyrir liðið.“
Aðspurður hvort hann sé farinn að hugsa um að spila fyrir utan landsteinana líkt og svo margir fyrrverandi Blikar gera segir Árni:
„Nei, það eru tveir leikir eftir. Svo bara sjáum við til hvað gerist.“
Keflavík
Grindavík