„TLC hefur tekið seríuna Here comes Honey Boo Boo af dagskrá og bundið enda á allt sem tengist henni. Eina sem er í forgangi hjá okkur er að passa heilsu og velferð þessara yndislegu barna,“ segja forsvarsmenn TLC í tilkynningu til tímaritsins Us Weekly.
Vefsíðan TMZ sagði frá því í gær að Mama June, sem heitir réttu nafni Shannon, sé í sambandi með Mark McDaniel sem var dæmdur fyrir að misnota átta ára ættingja Shannons kynferðislega. Hann var dæmdur í fangelsi í júní árið 2004 en Shannon heldur því fram að þau hafi verið í sambandi fyrir tíu árum síðan.
Shannon tjáði sig um fréttirnar á Facebook-síðu dóttur sinnar, Alönu.
„Ég vil skrifa færslu til að blása á kjaftasögurnar. Munið að þið megið ekki trúa því sem þið lesið! Ég lofa að börnin mín eru í forgangi. Ég myndi aldrei setja þau í hættu út af þessu eða öðru. Þau eru líf mitt,“ skrifar Shannon.
„Þetta er fortíð mín. Ég fór frá honum fyrir tíu árum og færi ekki aftur til hans.“