Lífið

Hlegið allan tímann

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Liðin hafa þrjár mínútur til þess að heilla dómarana.
Liðin hafa þrjár mínútur til þess að heilla dómarana. VÍSIR/GVA
„Þetta er alveg eitt það skemmtilegasta sem hægt er að gera, bæði að keppa og horfa á þetta,“ segir Ari Freyr Ísfeld Óskarsson, annar skipuleggjanda Leiktu betur í ár.

Leiktu betur er spunakeppni framhaldsskólanna þar sem keppt er í leikhússporti, ákveðinni tegund af spuna. „Það eru fjórir saman í liði og liðin fá áskorun úr salnum. Það getur verið hvað sem er,“ heldur Ari Freyr áfram.

En sjálfur keppti hann fyrir hönd Kvennaskólans í Reykjavík á sínum menntaskólaárum. „Liðið kemur sér svo saman um stíl og það er fullt af stílum í leikhússporti. Til dæmis sápuóperustíll, spæjarastíll eða ritvélarstíll. Liðið getur svo gert hvað sem er innan síns stíls.“

Í ár verða engir leikmunir sem keppendur munu hafa aðgang að en Steingrímur Teague, hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Moses Hightower, mun sjá um undirspil.

Um skipulagningu Leiktu betur ásamt Ara Frey sér Gunnar Smári Jóhannesson. „Reynsla okkar Gunnars Smára af leikhússpuna í gegnum árin hefur sýnt okkur að fólk festist oft í leikmunum og notar þá sem hækju. Liðin hafa bara 10 sekúndur fyrir spunann til þess að koma sér í gírinn og þá fer tíminn oft í það að hlaupa að ná í leikmuni.“

Í ár keppa sex lið í Leiktu betur en keppnin verður haldin í Borgarleikhúsinu í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×