Meira vald takk Óli Kristján Ármannsson skrifar 12. júní 2014 07:00 Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum kom í ljós að verulega hefur dregið úr þátttöku í kosningum hér á landi, sem þó hefur sögulega verið afar góð. Við virðumst því á sömu leið og mörg önnur lönd. Bretar telja sig til að mynda góða ef kjörsókn er á milli 50 til 55 prósent. Í nýafstöðnum kosningum til Evrópuþings var kjörsókn þar 43 prósent. Kjörsókn á landsvísu í nýafstöðnum kosningum var um 66 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu sveiflaðist hún milli 60,5 og 69 prósenta og á landinu frá 55 upp í 90 prósent. Sögulega hefur kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum verið milli 82 og 88 prósenta, en hefur verið á niðurleið frá 2006 þegar hún datt fyrst niður fyrir 80 prósentin. Í öðrum löndum þar sem kjörsókn er orðin enn lakari en hér hefur sums staðar hefur verið rætt um að gera þátttöku í kosningum lögboðna þannig að sektir liggi við því að kjósa ekki. Það getur verið ágætishugmynd. Margvísleg lýðræðisþátttaka getur verið bundin í lög. Til dæmis er ekki án góðra raka hægt að skjóta sér undan kviðdómsskyldu í Bandaríkjunum. Hættan sem slíku fyrirkomulagi fylgir er þó að kjósendur mæti og merki bara við eitthvað, eða ógildi seðil sinn. Skylduþátttaka gæti þó vakið lýðræðisáhuga hjá einhverjum þannig að kannski jafnar það sig út. Ef til vill er samt vænlegra en að grípa til slíks valdboðs að velta fyrir sér ástæðum þess að dregið hefur úr þátttöku í kosningum og reyna að bregðast við með úrbótum til þess að glæða á ný áhuga fólks á að taka lýðræðislega ábyrgð á samfélagi sínu. Ljóst er að samspil ólíkra þátta getur orðið til þess að draga úr áhuga fólks á kosningum. Framboð hafa úr mismiklum fjármunum að spila í kosningum og kynningarefni frá þeim því ef til vill ekki nógu mikið til að glæða almennan áhuga. Í Alþingiskosningum hjálpar ekki að atkvæði hafa mismikið vægi eftir því hvar er kosið á landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir sjálfur mjög mikið að segja um uppröðun á lista og kjósendur hafa bitlaus verkfæri til að hafa áhrif á það val. Óheyrilegt magn útstrikana þarf til dæmis til að færa fólk til á lista. Svo er náttúrlega fyrirhöfn að mæta á kjörstað, standa í röð, sýna skilríki og merkja við á pappír á bak við tjald. Þegar fram í sækir getur fólk ef til vill kosið rafrænt, en enn sem komið er hefur ekki fundist lausn sem þykir nægilega örugg. Það segir sína sögu að í nýlegri umfjöllun Fréttablaðsins um rafrænar kosningar voru það fulltrúar Pírata, flokksins sem einna mestan áhuga hefur á því að hagnýta upplýsingatækni til að auka lýðræði í landinu, sem sáu mest tormerki á rafrænum kosningum. Á meðan ekki finnst lausn á því að tryggja öryggi rafrænna kosninga gæti skref í rétta átt verið að auka val og áhrifamátt kjósenda, svona um leið og vægi atkvæða yrði jafnað. Í kosningunum til stjórnlagaþings kom í ljós að persónukjör er ekki of flókið í framkvæmd. Því ætti til dæmis ekkert að vera því til fyrirstöðu að gefa kjósendum kost á að velja fulltrúa þvert á flokka á kjörseðli, jafnvel þó svo að eitthvert eitt ákveðið framboð fái atkvæðið. Slík leið hlýtur að eiga sérstaklega vel við í sveitarstjórnarkosningum sem oft og tíðum snúast meira um fólk en stjórnmálastefnur flokka. Með slíkri leið yrði vissulega vald fært frá stjórnmálaflokkum til kjósenda, en það er varla slæmt. Sérstaklega ekki ef það yrði til að glæða áhuga fólks á því að kjósa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum kom í ljós að verulega hefur dregið úr þátttöku í kosningum hér á landi, sem þó hefur sögulega verið afar góð. Við virðumst því á sömu leið og mörg önnur lönd. Bretar telja sig til að mynda góða ef kjörsókn er á milli 50 til 55 prósent. Í nýafstöðnum kosningum til Evrópuþings var kjörsókn þar 43 prósent. Kjörsókn á landsvísu í nýafstöðnum kosningum var um 66 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu sveiflaðist hún milli 60,5 og 69 prósenta og á landinu frá 55 upp í 90 prósent. Sögulega hefur kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum verið milli 82 og 88 prósenta, en hefur verið á niðurleið frá 2006 þegar hún datt fyrst niður fyrir 80 prósentin. Í öðrum löndum þar sem kjörsókn er orðin enn lakari en hér hefur sums staðar hefur verið rætt um að gera þátttöku í kosningum lögboðna þannig að sektir liggi við því að kjósa ekki. Það getur verið ágætishugmynd. Margvísleg lýðræðisþátttaka getur verið bundin í lög. Til dæmis er ekki án góðra raka hægt að skjóta sér undan kviðdómsskyldu í Bandaríkjunum. Hættan sem slíku fyrirkomulagi fylgir er þó að kjósendur mæti og merki bara við eitthvað, eða ógildi seðil sinn. Skylduþátttaka gæti þó vakið lýðræðisáhuga hjá einhverjum þannig að kannski jafnar það sig út. Ef til vill er samt vænlegra en að grípa til slíks valdboðs að velta fyrir sér ástæðum þess að dregið hefur úr þátttöku í kosningum og reyna að bregðast við með úrbótum til þess að glæða á ný áhuga fólks á að taka lýðræðislega ábyrgð á samfélagi sínu. Ljóst er að samspil ólíkra þátta getur orðið til þess að draga úr áhuga fólks á kosningum. Framboð hafa úr mismiklum fjármunum að spila í kosningum og kynningarefni frá þeim því ef til vill ekki nógu mikið til að glæða almennan áhuga. Í Alþingiskosningum hjálpar ekki að atkvæði hafa mismikið vægi eftir því hvar er kosið á landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir sjálfur mjög mikið að segja um uppröðun á lista og kjósendur hafa bitlaus verkfæri til að hafa áhrif á það val. Óheyrilegt magn útstrikana þarf til dæmis til að færa fólk til á lista. Svo er náttúrlega fyrirhöfn að mæta á kjörstað, standa í röð, sýna skilríki og merkja við á pappír á bak við tjald. Þegar fram í sækir getur fólk ef til vill kosið rafrænt, en enn sem komið er hefur ekki fundist lausn sem þykir nægilega örugg. Það segir sína sögu að í nýlegri umfjöllun Fréttablaðsins um rafrænar kosningar voru það fulltrúar Pírata, flokksins sem einna mestan áhuga hefur á því að hagnýta upplýsingatækni til að auka lýðræði í landinu, sem sáu mest tormerki á rafrænum kosningum. Á meðan ekki finnst lausn á því að tryggja öryggi rafrænna kosninga gæti skref í rétta átt verið að auka val og áhrifamátt kjósenda, svona um leið og vægi atkvæða yrði jafnað. Í kosningunum til stjórnlagaþings kom í ljós að persónukjör er ekki of flókið í framkvæmd. Því ætti til dæmis ekkert að vera því til fyrirstöðu að gefa kjósendum kost á að velja fulltrúa þvert á flokka á kjörseðli, jafnvel þó svo að eitthvert eitt ákveðið framboð fái atkvæðið. Slík leið hlýtur að eiga sérstaklega vel við í sveitarstjórnarkosningum sem oft og tíðum snúast meira um fólk en stjórnmálastefnur flokka. Með slíkri leið yrði vissulega vald fært frá stjórnmálaflokkum til kjósenda, en það er varla slæmt. Sérstaklega ekki ef það yrði til að glæða áhuga fólks á því að kjósa.