Lífið

Hundur kennarans át næstum heimaverkefni nemandans

Atli Ísleifsson skrifar
Hundurinn Zelda, fjögurra mánaða Golden Retriever, ásamt eiganda sínum.
Hundurinn Zelda, fjögurra mánaða Golden Retriever, ásamt eiganda sínum. Mynd/Þorgerður Ösp
„Það hefði náttúrulega verið hálfvandræðalegt ef ég, kennarinn, hefði þurft að koma í tíma daginn eftir og segja að hundurinn minn hefði étið heimaverkefni nemendanna,“ segir Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir, hundaeigandi og aðstoðarkennari í háskóla í Los Angeles, í samtali við Vísi.

Þorgerður birti fyrr í dag mynd af hundi sínum í Facebook-hópnum Hundasamfélagið sem sýnir hvernig hundurinn Zelda, fjögurra mánaða Golden Retriever, hafði tætt í sig umsagnarbréf um ritgerð eins nemenda sinna sem hún hafði útbúið.

Þorgerður er í meistaranámi í arkitektúr og aðstoðarkennari í ritlistaráfanga fyrir nemendur í grunnnámi í háskóla í Los Angeles. „Ég fer yfir mjög margar ritgerðir og ég er með svona umsagnarblöð sem ég festi við þær. Þetta var þannig að ég var búin að gefa einum nemandanum vitlausa einkunn og bjó því til nýtt umsagnarblað handa honum. En voffinn minn, hún Zelda, var búin að tæta í sig gamla umsagnarblaðið þegar ég kom fram af klósettinu. Það varð því engum meint af. Þetta var ekki heimaverkefni neins. Hún tók akkúrat blaðið sem mátti fara í ruslið.“

Þorgerður segist ekki hafa átt von á svona miklum viðbrögðum við Facebook-færslu sinni. „Þetta er auðvitað svakalega fjölmennur hópur þarna, en ég átti ekki von á þessu. Það voru komin 500 „like“ örfáum klukkustundum eftir að ég var búin að segja frá þessu.“

Hún segist hafa sagt nemendunum sínum frá þessu og að þeim hafi þótt þetta voðalega fyndið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×