Lífið

Slysaðist í bókband

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Aníta Berglind Einarsdóttir
Aníta Berglind Einarsdóttir Vísir/GVA
„Ég byrjaði í grunnnámi í Tækniskólanum og ætlaði upphaflega að fara í grafíska miðlun og umbrot,“ segir Aníta Berglind Einarsdóttir, en hún er að útskrifast sem bókbindari frá Tækniskólanum.

„Það var eiginlega skólastjóranum að kenna að ég fór í þetta. Á fyrsta ári er boðið upp á kynningaráfanga og ég var sett í bókbandið. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert spennt fyrir því, en lét mig hafa það og fór,“ segir Aníta.

Námið segir hún hafa komið sér á óvart og verið mun fjölbreyttara en hún átti von á. „Þetta er svo ótrúlega víðtækt fag. Þetta snýst um að vinna allan frágang á öllu prentuðu efni, alveg frá því að sauma saman í höndunum og upp í það að mata stórar vélar. Við lærum svo margt, til dæmis að skera niður nafnspjöld, að binda bók frá grunni, handgylla og binda leðurbækur,“ segir hún, en hluti af kennslunni fór fram í Þjóðarbókhlöðunni.

Ferlið í kringum prentun og bókband var mun meira og flóknara en hún hélt. „Ég hélt að ferlinu væri eiginlega lokið eftir prentun, en það eru ótrúlega margar hendur og vélar sem koma við sögu eftir það,“ segir Aníta, en hún ætlar að fara í áframhaldandi nám og stefnir á að fara í nám í prentun, þar sem þessi tvö fög tengist mikið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×