Lífið

Skipta yfir í ensku svo þær geti hjálpað feita og ljóta fólkinu í útlöndum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Anna og Bylgja sem Tinna og Tóta.
Anna og Bylgja sem Tinna og Tóta.
„Tinna og Tóta urðu til árið 2012. Við bjuggum fyrst til tvo þætti þar sem við vorum aðallega að gera grín að módel fitness en þetta hefur þróast út í að vera meira um ýkjurnar og geðveikina sem fylgir heilsuæðinu og útlitsdýrkun,“ segir leikkonan Anna Hafþorsdóttir. Hún og Bylgja Babýlons hafa hafið söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund og freista þess að safna fyrir gerð nýrra þátta um stöllurnar Tinnu og Tótu, sem sýndir voru á Bravó.

„Við gerðum átta þætti með Stórveldinu sem sýndir voru á Bravó. Það var ótrúlega skemmtilegt og þegar Bravó ævintýrið kláraðist gerðum við „pilot“-þátt með Stórveldinu og ætluðum að reyna að koma Tinnu og Tótu í sjónvarpið. Það gekk ekki upp en við Bylgja erum ekki tilbúnar að kveðja dætur okkar Tinnu og Tótu og ætlum því að halda áfram að gera þætti og setja á YouTube. Til þess að við endum ekki á götunni, að borða upp úr ruslatunnum hófum við söfnun á Karolina Fund,“ segir Anna. Þær Bylgja ætla að reyna að safna tvö hundruð þúsund krónum á síðunni.

Tinna og Tóta ætla í útrás.
„Ef sú upphæð næst ekki næsta mánuðinn munum við ekki fá neitt. Þessi peningur mun fara í framleiðsluna á þáttunum en það er ekkert grín að vera fabjúlöss í dag, eins og Tinna og Tóta eru. Það þarf að fara í brúnkusprey, fá gervineglur, augnhár, föt og ég veit ekki hvað og hvað. Svo þurfum við auðvitað græjur til að taka upp mynd og hljóð.“

Þeir sem styðja stöllurnar fá ýmislegt að launum, til dæmis áritaða mynd af Tinnu og Tótu og persónulegt bréf frá þeim eða eintaklingsmiðaða ráðgjöf í vídjóbloggi.

Tinna og Tóta láta sér heimamarkaðinn ekki nægja og stefna á frekari landvinninga með nýju seríunni.

„Í næstu þáttaröð munu áhorfendur fá ýmis góð ráð, bæði til að halda sér í formi og til þess að vera fallegir. Helsta breytingin er sú að þær Tinna og Tóta ætla að skipta yfir í ensku svo þær geti líka hjálpað feita og ljóta fólkinu í útlöndum. Já, þær eru sem sagt að fara í heljarinnar útrás og það er ekki langt í heimsfrægð hjá þeim,“ segir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×