Lífið

Handboltabræður frá Akureyri opna fatabúð

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Bræðurnir Sigurpáll og Heiðar
Bræðurnir Sigurpáll og Heiðar Vísir
„Okkur dettur alltaf alls konar vitleysa í hug,“ segir Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, fyrrverandi handboltamaður, sem ásamt bróður sínum, handboltamanninum Heiðari Þór Aðalsteinssyni, opnaði tískuvöruverslunina Kasual í Smáralind á dögunum, en þeir eru báðir frá Akureyri.

„Það leiddi nú bara eitt af öðru og við duttum eiginlega óvart inn í þennan rekstur með Ella félaga okkar, sem er líka Akureyringur, en hann er einmitt að selja Sjallann núna,“ segir Sigurpáll.

Þeir bræður eru báðir búsettir á Akureyri þar sem þeir reka ísbúðina Joger í Kaupvangi ásamt því að Heiðar spilar handbolta með liði Akureyrar. „Konan mín er mikið fyrir sunnan og heldur utan um þetta, en við erum auðvitað alltaf með annan fótinn þarna,“ bætir Sigurpáll við.

Í Kasual er að finna fatnað fyrir bæði kynin og segir Sigurpáll verslunina vera enn í mótun. „Við erum að vinna í því að fá nokkur flott merki þarna inn, ásamt því að bjóða upp á ódýrari vöru líka. Svo eru alltaf eitthvað í gangi hjá okkur og alltaf einhverjar breytingar í vændum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×